Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Faghópur í örverufræði rannsakar og mælir örverur í matvælum, vatni, lyfjum og umhverfi. Örverumælingar miða að því að meta fjölbreytileika og dreifingu örvera til að stuðla að bættu öryggi og heilnæmi íslenskra afurða. Notaðar eru fremstu aðferðir í erfðagreiningum örvera ásamt hefðbundnum og faggiltum mæliaðferðum.

Verkefni í örverurannsóknum eru unninn í tengslum við bæði innlenda og erlenda aðila og er áhersla lögð á að kanna fjölbreytileika og hlutverk örvera í mismunandi umhverfi, meta gagn og skaðsemi þeirra fyrir umhverfið og aðrar lífverur. Einnig eru áhrif örvera á geymsluþol matvæla metin og stofnagreiningar gerðar fyrir sjúkdómsvaldandi örverur með raðgreiningum á erfðamengi þeirra. Meðfram rannsóknunum eru þróaðar nýjar mæliaðferðir  fyrir spilli- og sjúkdómsvaldandi bakteríur. 

Sem dæmi um umhverfi þar sem fjölbreytileiki og hlutverk örvera eru til rannsóknar, má nefna matvælavinnslu, ferskvatn, þarmaflóru manna og dýra, hafsvæðin við Ísland og jaðarumhverfi eins og hveri og jökulvatn. Valin umhverfissýni og einangraðir örverustofnar eru geymd í sýna- og stofnasafninu ISCAR (Icelandic Strain Collection and Records). 

Dæmi um verkefni sem eru í gangi hjá faghóp í örverufræði:

  • Faggildar þjónustumælingar á örverufjölda í matvælum, neysluvatni, lyfjum og umhverfi.
  • Rannsóknir og kortlagning á uppruna óæskilegra baktería (t.d. sjúkdómsvaldandi og sýklalyfjaónæmra baktería) í umhverfi, matvælum, matvælavinnslum og í mönnum með greiningum á erfðamengi (genome) þeirra til að uppræta og skilja smitleiðir.
  • Rannsóknir á erfðamengi (metagenome) örvera og fjölbreytileika þeirra með 16S rRNA gena greiningum í mismunandi umhverfi eins og t.d. þarmaflóru og hafsvæðinu við Ísland til að rannsaka hlutverk og virkni þeirra í breytilegu umhverfi og loftslagi.
  • Rannsóknir á vistfræði örvera úr jaðarumhverfi t.d. hverum, jöklum og djúpsvæðum sem og  nýtingu þeirra í líftæknilegum tilgangi.
  • Viðhald og stækkun sýna- og stofnasafnsins ISCAR sem inniheldur valin umhverfissýni og örverur af fjölbreytilegum uppruna. Skrásetja líffræðilega fjölbreytni fyrir faraldsrannsóknir og nýtingu í líftækni (iscar.matis.is).
  • Þróun nýrra aðferða til að greina og stýra vexti sjúkdómsvaldandi baktería og skemmdarbaktería.
  • Nýting örvera til matvælaframleiðslu og vinnslu nýrra lífefna og annarra afurða.
IS