Fréttir

Matarsmiðjan

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Bulsur

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson með framleiðslu á Bulsum.

Hjónin Berglind og Svavar Pétur standa að baki gerð á grænmetispylsum sem þau kalla Bulsur og framleiða undir því vörumerki. Árið 2012 kviknaði hugmyndin að Bulsugerðinni í huga Svavars sem fann sig í þeirri stöðu að langa í klassíska pylsu en vilja þó ekki neyta neinna kjötvara. Hann ákvað þá að taka málin í sínar eigin hendur og þróa pylsur sem hentuðu þeim sem kjósa sér grænmetisfæði.

Við Bulsugerðina var leitast við að nota aðallega hráefni sem finnast í nærumhverfinu og eftir töluverða tilraunastarfsemi fann hann út að bygg væri heppilegt innihaldsefni til að byggja á. Alls kyns önnur innihaldsefni voru prófuð og árið 2013 var blandan fullkomnuð. Bulsurnar eru gerðar úr íslensku lífrænt ræktuðu bankabyggi, baunum, mjöli, fræjum og ferskum kryddum og þær eru án allra aukaefna. Jafnframt innihalda þær engar dýraafurðir og innihaldsefnin eru lífræn og íslensk eins og mögulegt er.

Hjónin hafa prófað sig áfram með ýmiss konar matvælaframleiðslu í gegnum árin en Bulsurnar hafa alltaf haldið velli og sótt frekar í sig veðrið með auknum áhuga landans á grænmetis- eða grænkerafæði. Best þykir að grilla Bulsurnar eða steikja þær á pönnu. Ímyndunaraflið má svo algjörlega ráða hvernig þær eru framreiddar en þær passa með flestu meðlæti og í ýmsa rétti. Hægt er að bera þær fram í brauði eins og hefðbundna pylsu með öllu, setja þær í pastarétti eða hafa með dögurði svo dæmi séu tekin. Bulsur fást í flestum matvörubúðum um allt land en auk þess bjóða nokkrir veitingastaðir upp á rétti af matseðli sem innihalda Bulsur.

Nánari upplýsingar um Bulsur má meðal annars finna á vefsíðunni bulsur.is.