Kostir skynmats

Skynmat er eina aðferðin sem gefur beina mælingu á þáttum eins og neytandi vörunnar skynjar þá.

Niðurstöður skynmats hjálpa til við að skilja viðbrögð neytenda. Niðurstöðurnar eru þó ekki neytenda-könnun en skýra engu að síður hvernig fólk upplifir og skynjar vöruna. Skynmat getur gefið til kynna hvernig skynrænir þættir spila saman, og sýnt heildar áhrif allra skynrænna þátta t.d. hvernig sætt og súrt spila saman o.s.frv.

Skynmatið getur gefið eina heildareinkunn sem nota má til ákvörðunar í vinnslu eða sölu afurða. Notkun á skynmati í daglegu gæðaeftirliti er mjög mikilvægt til að fylgjast með breytingum í hráefni og þá þarf vörulýsingin að liggja fyrir. Það þarf að vera ljóst hvaða breytileika má búast við í skynmatseiginleikum og hver er eðlilegur breytileiki í hverjum eiginleika.

Skynmat getur þá svarað spurningum eins og hvort framleiðslan stenst kröfur og hvort merkjanlegur mismunur sé á milli þess sem er prófað og staðals.

Þegar breytingar verða á hráefni, framleiðslu, pökkun svarar skynmat spurningum eins og breytast gæðin, breytast þau út fyrir leyfileg mörk eða er munurinn merkjanlegur. Einnig þarf að vera vitneskja um hversu mikið mega skynrænir eiginleikar breytast áður en hætta er á að hafi áhrif á hvernig neytendum líkar varan. Þeir sem vinna í gæðaeftirliti verða að vinna á hlutlægan hátt og samkvæmir sjálfum sér þeir þurfa að þekkja hvað er leyfður mismunur á milli lota og einnig innan hverrar lotu, ásamt því að þekkja allt sviðið.

IS