Fréttir

Samstarfsaðilar Öruggra matvæla fögnuðu á föstudag

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tilefnið var opnun glæsilegrar rannsóknastofu að Vínlandsleið 12 í Reykjavík en rannsóknastofan var sett upp vegna samstarfsverkefnisins Örugg matvæli.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson var viðstaddur opnunina ásamt sendiherra Þýskalands á Íslandi, Thomas Hermann Meister, en báðir héldu þeir stuttar ræður og opnuðu rannsóknastofuna formlega með borðaklippingum. Ágústa Guðmundsdóttir, sem situr í stjórn Matís, hélt einnig góða ræðu um mikilvægi rannsóknaaðstöðunnar fyrir almenning, fyrir íslenska matvælaframleiðslu og fyrir Matís og hvernig aðstaðan mun nýtast í m.a. námi í matvæla- og næringarfræði við háskóla Íslands.


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður
Ingi Jóhannsson og sendiherra Þýskalands á Íslandi,
Thomas Hermann Meister, opna aðstöðuna formlega.

Verkefninu Örugg matvæli er ætlað að tryggja matvælaöryggi og vernda íslenska neytendur. Verkefnið gerir íslenskum yfirvöldum, Matvælastofnun og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaganna betur kleift að framfylgja löggjöf um matvælaöryggi og neytendavernd. Örugg matvæli er unnið í samvinnu Matís, Matvælastofnunar, Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

Með opnun rannsóknaaðstöðunnar og með bættum tækjabúnaði verður hægt að framkvæma mun fleiri mælingar innanlands en nú er s.s. mælingar á þörungaeitri í skelfiski og mælingu 300 varnarefna í matvælum í stað þeirra 60 sem nú eru mæld.

Verkefnið Örugg matvæli verður án vafa mikill stökkpallur fyrir íslenska neytendur, eftirlitsaðila og ekki hvað síst fyrir framleiðendur og söluaðila. Neytendur vilja nánari upplýsingar um efnin sem eru og eru ekki í matvælum sem þeir neyta og framleiðendur og söluaðilar vilja einnig fá þessar upplýsingar til að auka enn frekar traust neytenda á þeirra vörum.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís.