Fréttir

Makríll – veiðar og vinnsla

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Markvissar makrílveiðar hér við land hófust árið 2007 en árið 2009 voru heimildir til makrílveiða fyrst takmarkaðar.

Árið 2006 veiddust 232 tonn en 2010 var aflinn kominn í 121.000 tonn.  Í upphafi fór stór hluti aflans í bræðslu og samtímis hefur geymslutæknin og vinnslan verið þróuð í þá átt að nýta aflann til manneldis. Makríll er veiddur hér við land á þeim árstíma sem hann er viðkvæmastur vegna bráðfitunar. Árið 2010 var um 70% aflans frystur.

Í mars 2011 kom út lokaskýrsla úr verkefni sem Matís vann ásamt Ísfélagi Vestmannaeyja og Huginn ehf. Skýrslan nefnist „Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum“ og var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í skýrslunni er fjallað um veiðar og vinnslu á makríl, búnað sem þarf við makrílvinnslu til manneldis, meðhöndlun afla, mælingar á makríl sem veiðist í íslenskri lögsögu og markaði.

Mælingar
Sumrin 2008 og 2009 var makrílsýnum safnað af þremur uppsjávarfiskiskipum. Á sýnunum voru gerðar mælingar á lögun og þyngd, sýnin voru kyngreind og fitu- og vatnsinnihald mælt  eftirfarandi þættir í lögun makríls voru mældir: Heildarlengd, staðallengd, hauslengd, bollengd, stirtla, breidd/þvermál, hæð, ummál, þyngd og kyn.

Makrill_hlutfall

Heildarlengd makrílsins var nokkuð breytileg, minnstu fiskarnir voru 29 cm og þeir stærstu 44 cm. Langmest var af makríl sem var 35-40 cm eða 71% af sýnunum. Léttustu makrílarnir sem komu með sýnunum voru milli 200 og 300 grömm en þeir þyngstu yfir 700 grömm. Langflest sýnin voru 300 – 600 grömm eða 84% af heildinni, þá voru hlutfallslega flest sýni 400-500 grömm eða 33%.

Makríllinn var hausskorinn og slógdreginn og því skiptir hauslengdin máli þegar fundin er besta stilling fyrir hausarann. Af sýnunum voru 92% með hauslengd 8 og 9 cm. Flest sýnin voru 6,0-6,9 cm á hæð eða 57%. Mesta hæð sýna var 7,8 cm.

Flest sýnin voru 4,0-4,9 cm á breidd eða 53%. Af sýnunum voru 98% milli 4,0 og 5,9 cm á breidd. Mesta breidd sýna var 6,5 cm. Við kyngreiningu kom í ljós að hængar voru meirihluti aflans eða 72% og hlutfall hrygnu 28%. Fituinnihald sýnanna var 18 – 31%. Vatnsinnihald sýnanna var 53 – 63%. Innihald fitufría þurrefnis sýnanna var 11 – 23%.

Flokkun
Vinnsluskip sem vinna makríl þurfa að vera sérstaklega útbúin til að tryggja rétta meðhöndlun og vinnslu á viðkvæmu hráefni. Fyrsta skrefið er flokkari sem flokkar makríl frá síld. Style flokkarar hafa reynst vel en þeir hafa stillanlegt bili milli banda og flokkast fiskurinn því eftir þvermáli.

Greiður eru notaðar til að halda flokkunarrásum Style flokkara í sundur. Þegar einungis makríll er unninn úr síldarblönduðum afla eru makrílgreiður notaðar og dettur síld þá strax niður á færiband en makríll dettur seinna niður á færibönd sem flytja hann til vinnslu, þó getur  mjög smár makríll flokkast með síldinni. Hægt er að vinna bæði makríl og síld samtímis og þarf þá að breyta greiðunum sem halda flokkunarrásunum í sundur. Síld dettur þá niður á fremstu færiböndin sem flytja hana áfram til vinnslu eða í geymslutanka en makríllinn á öftustu færiböndin og fer þaðan áfram til vinnslu.

Markaðir
Stærstu útflytjendur frosins makríls, með hrognum og lifur, eru Noregur og Bretland/Skotland, en velta þessara landa er samanlagt yfir 60% af útflutningsverðmæti makríls á heimsvísu. Stærsti markaðurinn fyrir frosinn makríl er í Japan, Rússlandi, Kína, Nígeríu, Tyrklandi.

Þegar markaðir fyrir makríl sem veiddur er yfir sumartímann eru skoðaðir er ljóst að markaðurinn í Japan hentar ekki vegna fituinnihalds makrílsins og vegna þess hve makríllinn er laus í sér.  Japansmarkaður er að endurskipuleggja gæðakröfur og hafa þeir sýnt makríl frá íslandi mikinn áhuga.  Fyrirtækin sem stunda makrílveiðar og vinnslu hafa notað ofurkælingu um borð í skipunum og í vinnslu og þess vegna hefur þeim tekist að fá góðan makríl í vinnsluna. Mismunandi gæðakröfur til makrílafurða eru gerðar á mörkuðum.  Fyrirtækin sem stunda veiðar og vinnslu á makríl hafa þróað og endurbætt vinnsluaðferðir bæði í landi og á sjó til að geta mætt kröfum kaupenda og unnið sig inn á nýja markaði.  Til að ná góðum árangri við að vinna sem mest af makrílnum til manneldis þá þarf að vera góð samvinna milli framleiðenda og kaupenda um sameiginlegan skilning á gæðum afurða.