Fréttir

Er gagn af opinberum gögnum?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Góð og sannreynd gögn eru nauðsynlegur grunnur áreiðanlegra upplýsinga til að tryggja rökstuddar ákvarðanir. Burtséð frá því hvaða ákvarðanir eru teknar og hvernig þær reynast, eru gögn og upplýsingar grunnur rökræðunnar. Mikilvægt er að gögn og upplýsingar byggi á samræmdum og stöðluðum aðferðum þannig að nýta megi þær af þekkingu.

Í sjávarútvegi sem og öðrum greinum er mikið magn gagna að finna, gagna sem eru grunnur að mörgum mikilvægum og afdrifaríkum ákvörðunum sem hafa áhrif á alþjóðasamskipti, samfélagið, fyrirtæki og einstaklinga.

Í þessu samhengi var ákveðið að meta afmörkuð opinber gögn um síldveiðar, vinnslu og verðmætasköpun í Noregi og Íslandi og reyna að meta hvort gögn sem birtast í opinberum gagnagrunnum þessara landa geti svarað nokkrum samanburðarspurningum með áreiðanlegum hætti.

Niðurstaðan er nokkuð skýr: Opinberar upplýsingar um afla er erfitt að tengja við opinberar upplýsingar um afurðir og verðmætasköpun með áreiðanlegum hætti. Skráning afurða í rétt tollskrárnúmer getur haft mikil áhrif, óstaðfestar upplýsingar um yfirvigt geta breytt samanburðinum umtalsvert o.s.frv.

Nauðsynlegt er að gera töluverðar úrbætur á allri virðiskeðju sjávarafurða varðandi skráningu og birtingu gagna ef sá möguleika á að vera til staðar að taka áreiðanlegar og rökstuddar ákvarðanir byggðar á bestri fáanlegri þekkingu hverju sinni. Líklegt má teljast að sama gildi um virðiskeðjur annarrar matvælaframleiðslu hér á landi.

Sjá skýrslu um virðiskeðju síldar í Noregi og á Íslandi

Ágrip

Tilgangur þessarar skýrslu er að meta almenn og opinber gögn í virðiskeðju sjávarfangs með það í huga að greina verðmætasköpun og gera tilraun til að bera saman mismunandi virðiskeðjur. Því var ákveðið að bera saman nýtingu síldar í Noregi og á Íslandi.

Megin ástæða þess að skoða síldina í þessum löndum er að um líka framsetningu gagna er að ræða í báðum löndunum og að vinnsla fer fram með svipuðum hætti.

Upplýsingarnar í löndunum báðum reyndust ekki þess eðlis að hægt væri að draga afgerandi ályktanir byggðar á þeim gögnum sem aðgengileg eru. Það er því nauðsynlegt að gera ýmsar úrbætur í gagnasöfnun og birtingu gagna ef sá kostur á að vera fyrir hendi að bera saman virðiskeðjur með áreiðanlegum hætti.

Tög: gögn, upplýsingar, virðiskeðja, síld

English summary

The purpose of this summary is to evaluate how public data from seafood value chains can be used to understand the dynamics of the seafood industry and benchmark different seafood value chains against each other. In order to do so, we have chosen to compare how herring catch is utilized in Norway and Iceland. The reason for choosing this species is good access to public data and the likeliness of production in those two countries. We have analysed what types of products are made from the available catch and identified the differences between the two countries regarding herring utilization.

Based on the case of Norwegian and Icelandic herring value chains, it is clear that great improvements are needed in order to be able to use public data from seafood value chains to understand the dynamics of the seafood industry and benchmark different seafood value chains against each other.

Tags: Data, benchmark, value chain, herring