Hvað má læra af Orkneyingum? - korn og áfengir drykkir

2.3.2016

Matís og Þoran ehf munu halda kynningarfund fyrir bruggmeistara og aðra áhugamenn um möltun og bruggun miðvikudaginn 9. mars í höfuðstöðvum Matís á Vínlandsleið 12 og mun fundurinn standa frá 15:00 til 16:15.

Um þessar mundir stýrir Matís verkefni um hagnýtingu korns til matvælaframleiðslu og er það styrkt af Norðurslóðaáætluninni (e. Northern Periphery and Arctic Programme). Fyrirtækið Þoran á aðild að verkefninu. Þátttakendur koma frá löndunum við norðanvert Atlantshaf; Íslandi, Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi í Kanada. Nú er lokið fyrsta tímabili verkefnisins og voru upplýsingar og áform tekin saman á ráðstefnu í Orkneyjum í lok síðasta árs. Meginhlutverk verkefnisins er flutningur þekkingar milli landa og efling atvinnulífs á norðurslóðum. Meðal þátttakenda standa Orkneyingar fremst í að nýta korn af norðurslóðum við framleiðslu áfengra drykkja og á ráðstefnunni miðluðu þeir af þeirri þekkingu, þ.e. ræktun byggs og möltun þess fyrir framleiðslu á viskíi og bjór. Hlutverk Matís er að miðla þessari þekkingu til fyrirtækja á Íslandi. Á fundinum verða leiðbeiningar frá Orkneyingum kynntar svo og möguleikar kynnir á að afla upplýsinga frá sérfræðingum í Orkneyjum. Þess má geta að fulltrúi Þoran sótti ráðstefnuna í Orkneyjum og fékk starfsþjálfun hjá maltgerð og viskíframleiðanda og mun hann tala um veru sína þar á fundinum.


Bygg að spíra hjá Highland Park viskífram-leiðandanum

Víða erlendis hefur áhugi á svæðisbundnum matvælum vaxið mikið. Fjölgun ferðamanna skiptir einnig máli í þessu sambandi. Á Íslandi er áhugi á að nýta þessi atriði til að auka tekjur af framleiðslu áfengra drykkja. Þá skiptir máli hvernig og hvort hægt er að framleiða malt úr íslenska bygginu. Einnig er ástæða til að beina athyglinni að humlunum en Norðmenn hafa um árabil rannsakað afbrigði af humlum sem henta við norðlægar aðstæður og þeir hafa einnig rannsakað kryddjurtir sem hægt er að nýta til að gefa nýjum bjórtegundum sérstöðu. Niðurstöður Norðmannanna verða kynntar á fræðslufundinum.

Kornrækt og drykkjarvöruframleiðsla á Orkneyjum á sér djúpar rætur. Hægt er að rekja kornrækt í Orkneyjum aftur til 3000 fyrir Krist. Drykkjarvöruiðnaðurinn skiptir nú miklu máli fyrir fjárhag eyjanna. Tvö fyrirtæki sem framleiða viskí eru mjög þekkt alþjóðlega en þau eru Highland Park Distillery og Scapa Distillery. Einnig starfa brugghúsin Orkney Brewery og Swannay Brewery á Orkneyjum. Mikill áhugi er á að nýta hið forna byggafbrigði Bere til að gefa vörum sterka ímyndar sérstöðu. Bruichladdich viskíframleiðandinn hefur í nokkur ár framleitt viskí úr Bere byggi með góðum árangri og má um þessar mundir finna flöskur af því m.a. á Keflavíkurflugvelli. Einnig hefur Arran viskíframleiðandinn fengið Bere bygg frá Orkneyjum til að brugga úr. Á Hjaltlandseyjum norðan Orkneyja er Valhalla Brewery sem framleiðir bjórinn Island Bere. Markaðssetning Orkneyinga byggir oft á arfleifð víkinganna og eru dæmi um afar velheppnaðar markaðssetningar.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.


Fréttir