• Screenshot-2019-01-14-at-10.57.48

Lagmetishandbókin komin á vefinn

18.1.2019

Þekking og miðlun er órjúfanlegur hluti nýsköpunar og aukinna verðmæta. Hversu miklum verðmætum á hvert kílógramm afla hver fróðleikur skilar er ómetanlegt því það má hæglega fullyrða að án þekkingar og verkkunnáttu verða ekki til nein verðmæti.

Við hjá Matís höfum lagt heilmikið að mörkum þegar kemur að menntun í matvælafræðum og vinnslu afurða og nú birtist enn ein handbókin, að þessu sinni full af fróðleik um lagmetisvinnslu og lagmetisafurðir. Matís fjármagnaði gerð handbókarinnar með stuðningi frá AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Ora hf, Akraborgin ehf og Hraðfrystihúsið Gunnvör lögðu sitt af mörkum til að þess að handbókin nýttist sem best lagmetisfyrirtækjum. 

Lagmetisvörur eru að mörgu leyti tæknilega flóknar vörur og þarf því virkilega góðan skilning á mikilvægi vinnsluþáttanna svo ekki skapist hætta fyrir neytendur. Til að ná þessu langa geymsluþoli lagmetisafurða má ekkert fara úrskeiðis, sem dæmi má nefna mikilvægi þátta eins og lokun dósa, suðuna sjálfa, hitastig og tíma, gerilsneyðingu, rotvörn og kælingu þegar það á við o.s.frv. Það má ekki gefa neinn afslátt í framleiðslu þessara afurða því lítil frávik geta haft mjög dramatískar afleiðingar.

Páll Gunnar Pálsson höfundur efnisins starfaði m.a. um árabil sem gæða- og framleiðslustjóri í niðursuðuverksmiðju Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði, en þetta er sjöunda handbókin sem Páll Gunnar hefur tekið saman. Hægt er að nálgast þær allar endurgjaldslaust á heimasíðu Matís. 

Ómetanlegt var að fá Einar Þór Lárusson sérfræðing hjá ORA til að vera með í þessu verkefni til að miðla af sinni miklu reynslu og þekkingu. En Einar Lárusson hefur unnið í lagmetis og fiskvinnslufyrirtækjum í áratugi við framleiðslu, en síðast en ekki síst við fjölbreytt vöruþróunar- og nýsköpunverkefni.

Lagmetishandbókina, sem er nýjasta eintakið í handbókasafni Matís, má nálgast hér . Lagmetishandbókin var fjármögnuð af Matís, með stuðning AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.


Fréttir