Fréttir

Matís – brú milli háskóla og atvinnulífs

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís er í miklu samstarfi við Háskóla Íslands, sem og aðra ríkisrekna háskóla, til þess að tryggja góða samvinnu milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Fyrirtækið vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi.

„Innan Matís er mjög fjölbreytt starfsemi. Hér eru mörg sérsvið sem vinna bæði í matvælaiðnaði og líftækni. Það er sterk tenging við atvinnulífið og háskólaumhverfið,“ segir Hörður G. Kristinsson rannsóknarstjóri Matís.

Boðið er upp á meistaranám og doktorsnám í matvælafræði við Háskóla Íslands. Námið er samvinnuverkefni Matís og næringarfræðideildar Háskóla Íslands. Boðið er upp á þrjár námsleiðir, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og líftæknilínu. Doktorsnámið felur í sér vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Mikil áhersla er lögð á að rannsóknarniðurstöður séu birtar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum við lok doktorsnáms.

Áhersla er lögð á hagnýtt nám en það felur í sér samstarf við fyrirtæki og stofnanir á vettvangi matvælaframleiðslu. Tækifærin eru mikil í íslenskri matvælaframleiðslu, sem sýnir sig í eftirspurn og starfsmöguleikum eftir nám. Námið nýtist þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði. Það nýtist öllum þeir sem hafa áhuga á að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar: www.matis.is/bruin/