Nýjar skýrslur um vinnslu lífvirkra efna úr sjávarfangi

11.8.2005

Nýlega komu út tvær skýrslur sem fjalla um þá möguleika sem hugsanlega felast í því að vinna lífvirk efni úr íslenskum sjávarfangi. Miklar vonir eru bundnar við að stórauka megi verðmæti sjávarafla í framtíðinni með því að framleiða lífvirk efnasambönd í markfæði o.fl.

Skýrslurnar tvær bera sama tiltil en sitt hvort skýrslunúmer. Skýrsla Rf 5-05 nefnist Lífvirk efni í íslensku sjávarfangi - Samantekt og þar er að finna samantekt á helstu niðurstöðum er varða möguleika á vinnslu lífvirkra efna úr íslensku sjávarfangi. Einnig eru settar fram í skýrslunni tillögur að auknu samstarfi og samvinnu á sviðum sem tengjast lífvirkni hér á landi. Í skýrslunni er einnig yfirlit um rannsóknir á sviðum sem tengjast lífvirkni á Ísland auk þess er fjallað um íslenska lagaumhverfið og stoðkerfið. Þessi samantekt er liður í því að kanna möguleika á vinnslu og sölu markfæðis og lífvirkra efna úr íslensku sjávarfangi.

Skýrsla Rf 6-05 Lífvirk efni í íslensku sjávarfangi - Yfirlitsskýrsla hefur að geyma yfirlit um lífvirk efni sem fundist hafa í hefðbundnum sjávarafla, bæði í hráefni og eftir vinnslu. Yfirlitsskýrslunni er skipt upp í 3 meginkafla eftir efnaflokkum þ.e.a.s.  fitu, prótein/peptíð/amínósýrur og kolefnis-sambönd.

Markmið skýrslunnar er fyrst og fremst að taka saman erlendar og innlendar rannsóknir og greinagerðir um lífvirk efnasambönd sem finnast í hefbundnum sjávarafla.  Þessi samantekt er liður í því að kanna möguleika á vinnslu og sölu markfæðis og lífvirkra efna úr íslensku sjávarfangi. Ennfremur að meta þörfina, tæknilega sem og þekkingarlega getu okkar Íslendinga til að rannsaka, þróa og framleiða lífvirk hráefni og efnasambönd úr sjávarfangi.
Fréttir