Fréttir

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Matís hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf á sviði nýsköpunartækifæra

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Báðir aðilar hafa hlutverk samkvæmt lögum sem horfir til bætts hags á víðum grundvelli og framþróunar á sviði sprota og nýsköpunar. Samstarfið miðar að því að treysta þetta hlutverk.

Samstarf af þessum toga er nýtt af nálinni þar sem koma saman annars vegar leiðandi rannsóknarfyrirtæki í líftækni- og matvælaiðnaði og hins vegar fjárfestingarsjóður á sviði sprota/nýsköpunarfjárfestinga.  

Báðir aðilar binda vonir við að ný fjárfestingarverkefni spretti af samstarfinu og sprotafyrirtækjum fjölgi á því sviði sem Matís ohf. sérhæfir sig sérstaklega,  í sjávarútvegi og í landbúnaði og öðrum hlutum lífhagkerfisins.

Bæði félögin eru í eigu hins opinbera og vinna í samræmi við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.  Þau hafa einnig mikla tengingu við háskólaumhverfið í landinu með ýmsu móti.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingum í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þá veitir sjóðurinn lán samhliða kaupum á eignarhlutum. Í starfsemi sinni tekur Nýsköpunarsjóður mið af stefnu Vísinda- og tækniráðs. Þá er sjóðnum heimilt að leita samstarfs við aðra aðila á sviði áhættufjármögnunar. 

Matís

Hlutverk Matís er að efla verðmætasköpun í lífhagkerfinu, stuðla að bættu matvælaöryggi og bættri lýðheilsu. Matís hefur á liðnum árum lagt áherslu á umbyltandi nýsköpun og rannsóknir og hefur í því augnamiði m.a. komið á fót sprotafyrirtækjum. Alþjóðlegar tengingar Matís eru umfangsmiklar og hefur félagið verið leiðandi í sókn íslensks þekkingarsamfélags í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi.

Nánari upplýsingar

Upplýsingar um samstarfið veita Huld Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís, en hér fyrir ofan má sjá þau við undirritun viljayfirlýsingarinnar.