Fréttir

Strandbúnaður 2017

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í dag, 13. mars 2017, hefst ráðstefnan Strandbúnaður 2017. Strandbúnaður, sem er nýyrði, sem samheiti atvinnugreina sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, þ.m.t. ræktun og eldi. Af því tilefni ritaði Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Innleiðingar og áhrifa, eftirfarandi grein í Morgunblaðið, sem birtist í dag.

Íslendingar standa, rétt eins og aðrir jarðarbúar, frammi fyrir miklum áskorunum. Óvíst er með hvaða hætti glíman við hinar miklu áskoranir kann að hafa áhrif á samfélag okkar, velferð og velsæld. Jarðarbúum fjölgar ört, það er staðreynd sem setur kvöð á mannkynið að nýta betur þau hráefni sem unnið er úr og framleiða eftir fremsta megni með sjálfbærum hætti.

Matvælaframleiðsla er meðal þýðingarmeiri verkefna sem huga þarf að þegar kemur að úrlausn hinna stóru áskoranna. Um alllangt skeið hefur innan við 5% af heildar matvælaframleiðslu heimsins komið úr höfum og vötnum, þó svo þau þeki um 70% af yfirborði jarðarinnar. Æ fleiri beina nú sjónum sínum að þessari staðreynd, því líklegt er að nokkur hluti fyrirsjáanlegrar aukningar matvælaframleiðslu heimsins fari fram við og fyrir ströndum meginlanda sem og eyríkja. Landbúnaður er fyrirferðamikill í matvælaframleiðslu heimsins og margfalt umfangsmeiri en veiðar eða nytjar villtra fiskistofna. Efnahagslögsaga Íslands er víðfeðm og ljóst er að möguleikar eru á að framleiða matvæli innan hennar auk veiða á villtum tegundum. Strandríkið Ísland býr að tækifærum með agaðri og skipulagðri uppbyggingu atvinnugreina við strendur landsins.

Ræktun lífvera í vatni er ekki ný af nálinni en hvorki ræktun né eldi hefur verið fyrirferðamikið á Íslandi, þó Ísland sé leiðandi í bleikjueldi og hafi verið framarlega í eldi á lúðu. Á síðustu árum hefur verið mikil aukning í laxeldi við Íslandsstrendur og efnileg fyrirtæki í þörungaræktun hafa sprottið upp. Þá hefur gróska verið í ræktun hryggleysingja og skel hefur sést á matseðlum víða um land. Mikilvægt er að vanda vel til verka við uppbyggingu atvinnugreina hér á landi. Atvinnugreinar sem byggja á hagnýtingu auðlinda á og við strendur landsins geta liðkað til við lausn þeirra áskorana sem við okkur blasa.

Strandbúnaður er samheiti yfir atvinnugreinar sem tengjast nýtingu land- og/eða sjávargæða í og við strandlengju landsins, hvort sem um ræktun eða eldi er að ræða.

Fyrir ábyrga þróun þeirra atvinnugreina sem teljast til strandbúnaðar er mikilvægt að fyrir hendi sé opinn vettvangur fyrir faglega og fræðandi rökræðu um brýnustu og mikilvægustu úrlausnarefnin. Í því augnamiði er efnt til ráðstefnunnar Strandbúnaður 2017 dagana 13.-14. mars á Grand Hótel. Ráðstefnan er öllum opin, þar verður farið yfir, á skilgreindum málstofum, stöðu og þróun fyrirferðamestu þátta strandbúnaðar við Ísland sem og stöðu mála á heimsvísu. Ráðstefnan styður þannig við menntun, rannsóknir, stefnumótun og þar með þróun greinarinnar.