Fréttir

Stuðningur við smáframleiðendur hefur sjaldan verið mikilvægari

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var á árunum 2014-2016 og fékk áætlunin nafnið The Nordic Bioeconomy Initiative, eða NordBio. Í kjölfarið var farið í verkefni, „Nýsköpun smáframleiðendur – Nordbio“ þar sem megin áherslan var lögð á að fylgja eftir og styðja enn frekar við smáframleiðendur í kjölfar nýsköpunarverkefna sem unnin voru undir NordBio formennskuáætluninni. Skýrslu úr því verkefni má finna á heimasíðu Matís . 

Meginmarkmið nýsköpunarverkefnanna í þágu smáframleiðenda var að hafa bein efnahagsleg áhrif í gegnum nýsköpun og verðmætasköpun í Norræna lífhagkerfinu (e. Bioeconomy) og styrkja þannig svæðisbundinn hagvöxt.  Unnið var við 17 nýsköpunarverkefni.

Reynslan af verkefnunum var sú að þekking og þjálfun er nauðsynleg til að hugmyndir raungerist og til að gera framleiðendum kleyft að fullnægja öllum kröfum um matvælaöryggi.

Nordbio nýsköpunarverkefnin hafa sýnt að notkun nokkurs konar „nýsköpunarinneignar” getur verið áhrifarík leið til að hvetja til nýsköpunar, yfirfærslu þekkingar og tækni til að auka virði lífauðlinda. Sýnt þykir að full þörf sé á að bjóða styrkveitingu af þessu tagi fyrir smáframleiðendur og frumkvöðla til að örva nýsköpun og leysa krafta hugmyndaflugs úr læðingi. 

Mikill akkur yrði af því að koma á fót sjóði sem stuðlað getur að nýsköpun í anda Nordbio verkefnanna sérstaklega í ljósi þeirra tækifæra sem nú leynast í aukningu í fjölda ferðamanna er leggja leið sína til Íslands.