Fréttir

Svipull er sjávarafli

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þörf er á því að vandað sé til verka við þróun atvinnulífsins. Þó Íslendingum hafi gengið vel að gera mikil verðmæti úr endurnýjanlegum auðlindum sjávar, sumpart betur en öðrum, er slíkt engin trygging fyrir Íslendingar skari fram úr á þessu sviði til frambúðar. Þess sáust skýr merki á síðasta ári. Því er mikilvægt að auka sókn fram á við með rannsóknum og þróun í tengslum við sjávarútveg frekar en að draga í land.

Íslendingar öfluðu meira úr sjó á árinu 2017, þrátt fyrir langt verkfall sjómanna, en þeir gerðu á árinu 2016. Á árinu 2017 nam magn útfluttra sjávarafurða um 52% af lönduðum heildarafla, árið áður var sambærilegt hlutfall 54%. Árið 2016 var að líkindum besta ár íslensk sjávarútvegs ef litið er til verðmætasköpunar í útflutningi fyrir hvert landað kg. Árið 2016 fengust 1,3 XDR útflutningsverðmæti fyrir hvert landað kg. Árið 2017 skilaði útflutningur sjávarafurða 1,13 XDR á hvert kg landaðs afla, lækkun um 13%. Svipaða þróun mátti sjá í 17% lækkun aflaverðmætis í íslenskum krónum milli áranna 2016 og 2017. Við veiddum um fjórðungi meira af uppsjávartegundum árið 2017 en árið 2016, en aflaverðmæti uppsjávartegunda var lægra í íslenskum krónum árið 2017 en 2016. Þorskafli var 5% minni árið 2017 en 2016, aflaverðmæti þorsks dróst saman um 16% milli ára.

Timalina_2017_islat4x

Útflutningsverðmæti, nýting og heildarveiði

Síðastliðið haust var bent á það að frá árinu 2010 hefur flökt frekar einkennt verðmætasköpun í sjávarútvegi hérlendis frekar en aukning sem mátti sjá með meira afgerandi hætti frá stofnun AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, 2003, og Tækniþróunarsjóðs Vísinda- og tækniráðs, 2004, fram til 2010 eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Stuðningur þessara lykilsjóða við nýsköpunarverkefni hefur stuðlað að þróun virðiskeðju íslensks sjávarfangs, nýjar aðferðir og lausnir byggðar á þekkingu hafa verið innleiddar í daglegan rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Markaðsaðstæður og aflasamsetning hafa jafnframt mikil áhrif á verðmætamyndun við veiðar og vinnslu sjávarfangs.

Fyrirtæki sem veiða, verka, flytja og selja fiskafurðir sem og fyrirtæki, sem þjónusta framangreind fyrirtæki m.a. með þróun tækjabúnaðar, hafa í samstarfi við Matís unnið með stuðningi AVS sjóðsins, Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og/eða Tækniþróunarsjóðs að verkefnum sem stuðlað hafa að auknum verðmætum.

Fao-fo-isl

Fiskverðvísitala FAO og útflutningsverðmæti kg í afla í XDR

Borið saman við fiskverðsvísitölu Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. FAO Fish Price Index) má sjá vísbendingar um mun á þróun verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi og þróunar fiskverðs skv. FAO og til frekari glöggvunar er hér að neðan jafnframt dregin upp lína sem sýnir þróun útflutningsverðmæta færeysks sjávarútvegs m.v. landaðan afla.

Afli-tonn-xdr

Afli og útflutningsverðmæti í XDR á kg afla

Ef litið er til aflamagns og útflutningsverðmætis í SDR (XDR) er ljóst að mikill afli er ekki ávísun á mikil verðmæti fyrir hvert landað kg. Jafnframt má sjá að frá því að lagt er upp með að auka verðmæti sjávarfangs með hagnýtingu rannsókna og þróunar við stofnun AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi árið 2003 og Tækniþróunarsjóðs árið 2004, fremur en að kappkosta það að auka magn sjávarfangs virðist sem meiri útflutningsverðmæti fáist fyrir hvert kg sem dregið er úr sjó.

Árið 2011 var hæstri fjárheimild veitt af fjárlögum í AVS. Sama ár hófst niðurskurður á fjárframlögum til matvælarannsókna á föstu verðlagi af fjárlögum. Á fjárlögum yfirstandandi árs er fjárheimild AVS innan við 44% af því sem mest var, árið 2011. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár (2019) er lagt upp með 12% niðurskurð á framlögum til matvælarannsókna (grunnur þjónustusamnings Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Matís), 9% skerðingu á framlögum úr ríkissjóði til AVS, rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og 55% samdrætti á heildargjöldum Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Í frétt á vef Fiskifrétta sagði um lækkun tekna Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins að Hafrannsóknastofnun ráðgerði 340 milljón króna lækkun á tekjuáætlun sinni. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 323 milljón króna lækkun á gjöldum Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins. Í framlögðu fjárlagafrumvarpi er boðaður niðurskurður á framlögum til matvælarannsókna (Matís) 12%. Tekjur Matís af styrkjum AVS við rannsóknaverkefni hafa numið um 27% af framlagi til matvælarannsókna. Tekjur Matís af styrkjum Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins hafa numið um 12% af framlagi til matvælarannsókna.
Það er því ekki tryggt að við getum búist við viðlíka fjölda af nýjungum í tengslum við íslenskan sjávarútveg á næstunni, sem mun eflaust koma niður á kynningarstarfi Íslenska Sjávarklasans.

Hringur_2017_islat4x

Nýting þorks 2017

Árið 2017 nýttu Íslendingar um 72% af þorskafla til framleiðslu á vörum sem fluttar voru úr landi eða neytt hér heima, skv. Hagtölum. Nýting Íslendinga á þorski árið 2017 var í takti við nýtingu ársins 2013 en nokkru minni en árið 2015 þegar sambærilegt hlutfall var um 77%.

1981-2017-xdr

Afli og verðmæti þorsks 1981 og 2017

Til gamans má varpa fram mynd sem sýndi hvaða verðmæti Íslendingar sköpuðu með veiðum og vinnslu á þorski á árinu 1981 og svo aftur í fyrra. Árið 2017 skapaði þorskafli Íslendinga útflutningsverðmæti sem nam um 565 milljónum í XDR, umtalsvert meiri verðmæti en árið 1981, þó þorskafli ársins 2017 hafi verið um 55% af þorskafla ársins 1981. Hvert aflað kg árið 1981 skilaði um 0,54 XDR í útflutningsverðmætum en árið 2017 skilaði hvert aflað kg, m.v. hagtölur 2,23 XDR í útflutningsverðmætum. Óskandi er að Íslendingum takist að skapa enn meiri verðmæti úr fiskistofnunum sem þrífast á hafsvæðunum umhverfis landið í framtíðinni.

Í þessu samhengi má geta þess að á morgun, miðvikudaginn 26. september 2018, fer fram í Hörpu Sjávarútvegsdagurinn, milli klukkan 08:00 og 10:00, í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins.