Fréttir

Fréttabréf frá Akureyri

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýlega bættust fjórir nemendur í rannsóknatengdu meistaranámi við fiskeldishóp Rf á Akureyri og stunda þau öll nám við Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Þetta eru þau Rut Hermannsdóttir, Bjarni Jónasson og G.Stella Árnadóttir, sem öll luku BS prófi frá Auðlindadeild Háskólans á Akureyri s.l. vor, og Eyrún Gígja Káradóttir sem lauk BS prófi frá Háskóla Íslands s.l. vor.

Bjarni Jónasson og Rut Hermannsdóttir unnu BS verkefni sín við rannsóknaverkefni sem þau vinna áfram við í meistaranáminu. Rut tekur þátt í verkefninu “Lífvirk efni í lúðueldi” og Bjarni er þátttakandi í verkefninu “Þróun bleikjufóðurs,” en þessi verkefni eru bæði styrkt af AVS sjóðnum.

Stella Árnadóttir vann lokaverkefni sitt til BS prófs við verkefnið “Fóður fyrir þorsk” sem styrkt var af AVS sjóðnum og Norræna Iðnþróunarsjóðnum, en því verkefni lauk nýverið og verður lokaskýrsla fljótlega birt á heimasíðu AVS. Stella mun í meistaranámi sínu vinna við verkefnið “Ljósastýring í þorskeldi” sem unnið er að í tilraunaeldiskvíum Rf í Ísafjarðardjúpi og er styrkt af AVS sjóðnum.

Bjarni JónassonEyrún Gígja Káradóttir Rut Hermannsdóttir Stella Árnadóttir
 Bjarni Jónasson Eyrún Gígja Káradóttir Rut Hermannsdóttir Stella Árnadóttir

Eyrún Gígja Káradóttir mun í meistaranámi sínu vinna við verkefnið “Bætibakteríur í lúðueldi” sem nýverið hlaut styrk úr Tækniþróunarsjóði Rannís.

Nemendurnir hafa verið iðnir við að kynna verkefni sín og helstu niðurstöður rannsókna í BS náminu. Grein eftir Bjarna birtist nýverið í tímaritinu Ægi og stytt útgáfa af þeirri grein mun birtast bráðlega í 2.tbl. Rannísblaðsins 2006. Rut kynnti meistaraverkefni sitt í málstofu við Viðskipta- og raunvísindadeild HA föstudaginn 22. september og var í framhaldi af kynningunni í viðtali á morgunvakt Rásar 1. þann 26.september.

Rut er einnig nýkomin af stórri ráðstefnu um rannsóknir á sviði ónæmisfræði sem haldin var í París  6-9. september s.l. Tilgangur fararinnar var fyrst og fremst að fræðast um helstu aðferðir sem notaðar eru við ónæmisfræðirannsóknir í dag.

Hildigunnur Rut Jónsdóttir hefur síðastliðin tvö ár verið nemandi í rannsóknatengdu meistaranámi við Auðlindadeild HA. Hildigunnur vann rannsóknahluta námsins við verkefnið “Forvarnir í fiskeldi” og útskrifaðist hún með meistaragráðu frá Auðlindadeild HA í júní s.l.