Mjólk í mörgum myndum

Áttu hugmynd þar sem mjólk kemur við sögu? Hér er tækifæri til að fá stuðning.

Auðhumla og Matís ætla að vinna saman að því að styðja og styrkja frumkvöðla til að þróa og koma nýjum hugmyndum byggðum á mjólk á framfæri. Opið er fyrir allskonar hugmyndir og eina skilyrðið er að mjólkin gegni lykilhlutverki. Kostur er ef hugmyndin stuðlar að jákvæðum umhverfisáhrifum og aukinni sjálfbærni.

Styrkir eru að hámarki 3 milljónir. Stuðningurinn felst í sérfræðiráðgjöf t.d. við að koma vöru á markað, aðstoð við uppsetningu vinnsluferla, vöruþróun, umbúðahönnun, matvælaöryggi og mælingar (t.d. geymsluþols-, næringargildis-, efnamælingar- og/eða lífvirknimælingar). Einnig kemur til greina að standa fyrir námskeiðum fyrir smáframleiðendur mjólkurafurða eða afla nýrrar þekkingar á annan hátt.

Það verður ekki greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup. Gert er ráð fyrir að verkefnin hefjist í mars 2018 og séu til eins árs.

Umsóknafrestur er til 15. janúar 2018. Sjá einnig www.facebook.com/mjolk.i.morgum.myndum

Sótt er um þátttöku með því að fylla út umsóknareyðublað sem má finna hér. Umsókn skal berast á tölvutæku formi á netfangið: umsokn@mimm.is

Matsblað sem notað verður við mat á umsóknum.

Fyrirspurnir sendist á mimm@mimm.is