Samstarf Matís við háskóla

  • Haskoli

Árið 2012 var ákveðið að setja á laggirnar fagsviðið Menntun og matvælaframleiðsla til þess að halda utan um samstarf Matís við menntastofnanir og leggja grunn að auknu samstarfi við innlenda og erlenda háskóla. Sviðið styrkir hlutverk Matís sem brú milli atvinnulífsins og menntunar og rannsókna.

Með samstarfi við menntastofnanir og starfsþjálfun nemenda sé Matís að fylgja eftir áherslum á rannsóknir og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis.

Önnur ástæða þess að Matís leggur áherslu á samstarf við menntastofnanir er hagkvæmni í formi samnýtingar á starfsfólki og aðstöðu. Auk þess skiptir það Matís og matvælafyrirtækin miklu máli að fá nemendur til að vinna að hagnýtum rannsóknaverkefnum og öðlast þannig þjálfun til að verða framtíðarstarfmenn fyrirtækjanna. Matís er mjög stórt rannsóknafyrirtæki á íslenskan mælikvarða og hér er mikil sérfræðiþekking og reynsla sem nýta þarf í kennslu, leiðsögn og starfsþjálfun í matvælavinnslu. Einnig erum við svo heppin að vera með fyrsta flokks aðstöðu á mörgum stöðum á landinu sem nýtast í sama tilgangi.

Starfsfólk Matís hefur haldið fyrirlestra og leiðbeint í verklegum æfingum í 10 BS námskeiðum, 4 námskeiðum sameiginlegum fyrir BS og MS nema og 10 MS námskeiðum í matvæla- og næringarfræði og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands. Þá hafa fjölmargir nemendur í meistara- og doktorsnámi við íslenska háskóla unnið að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís og nær alltaf í samvinnu við atvinnulífið.

Samstarf Matís við menntastofnanir á liðnum árum hefur verið farsælt og stuðlað að verðmætasköpun í matvælaiðnaðinum hér á landi auk þess að undirbúa afbragðs vísindamenn fyrir störf í tengslum við matvælafræði. Matvælafræði er ört stækkandi grein og kröfur um framúrskarandi menntun og þekkingu verður háværari með degi hverjum enda snertir greinin neytandann með margvíslegum hætti. Matís leitast við tengja starfsemi sína og samstarfsaðila við fyrirtæki, rannsóknasetur og starfsstöðvar utan Reykjavíkur.

Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við háskólasamfélagið að kennslu og þjálfun nemenda.

Háskólasamstarf - íslenskir háskólar

Háskóli Íslands

Matís hefur átt í miklu og góðu samstarfi við Háskóla Íslands um nám í matvælafræði en það er samvinnuverkefni Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Í náminu er lögð rík áhersla á að nemendur vinni hagnýt verkefni og séu í tengslum við atvinnulífið.

Samstarfið við Háskóla Íslands er ekki bundið við matvæla- og næringarfræðideild þar sem einnig er mikið samstarf við verkfræði- og náttúruvísindasvið og einnig félagsvísindasvið.

Sumarið 2013 gerðu Matís og HÍ með sér samning um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Samningurinn leggur grunninn að frekri eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Matís, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtök iðnaðarins standa að landskeppni í vistvænni nýsköpun matvæla. Haustið 2013 unnu íslensku sigurvegararnir til verðlauna í Evrópukeppni fyrir athyglisverðustu nýjungina.

Háskólinn á Akureyri

Matís og HA skrifuðu undir samstarfssamning í janúar 2014. Samningurinn leggur grunn að frekari eflingu rannsókna og menntunar í sjávarútvegsfræðum, matvælafræðum og líftækni auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna, með það að markmiði að vera í fararbroddi á Íslandi á þeim fræðasviðum sem tengjast sjávarútvegsfræði og líftækni. Eitt af markmiðum samningsins er að efla kennslu og rannsóknir á sviði sjávarútvegsfræða, matvælafræða og líftækni, m.a. með sókn í alþjóðlega sjóði og samstarf á sviði nýtingar auðlinda norðurslóða.

Markmið hans er einnig að fjölga þeim sem stunda nám og rannsóknir á þessum fræðasviðum, samþætta rannsókna- og þróunarverkefni á sviði sjálfbærrar auðlindanýtingar, vinnslutækni, líftækni, matvælaöryggis og lýðheilsu, að virkja fleiri starfsmenn Matís í kennslu við HA og gefa viðkomandi starfsmönnum Matís kost á því að fá faglegt akademískt mat hjá HA/Viðskipta- og raunvísindasviði og möguleika á gestakennarastöðum, enda verða greinar birtar undir hatti beggja samningsaðila, ásamt því að samnýta aðstöðu, húsakost og tækjabúnað.

Matís vinnur mikið með viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri og þá helst í fiskeldi og sjávarútvegsfræðum.

Háskólinn á Bifröst

Í janúar 2014 skrifuðu Matís og Háskólann á Bifröst undir samstarfssamning þess efnis að Matís sjái um kennslu og uppbyggingu námsgreina í matvælarekstrarfræði, nýrri námslínu sem fyrst var í boði haustið 2014.

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna

Skólinn er samstarfsverkefni fjögurra stofnana og fyrirtækja: Matís, Hafrannsóknastofnunarinnar, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, en auk þess koma Háskólinn á Hólum og Háskólasetur Vestfjarða að þessu samstarfi. Daglegur rekstur skólans heyrir undir Hafrannsóknastofnun og er forstöðumaður skólans Dr. Tumi Tómasson

Í náminu er lögð áhersla á hagnýta þekkingu og reynslu og nemendur vinna náið með íslenskum leiðbeinendum í verkefnavinnu. Starfskynningar eru stór hluti af náminu en þær ná yfir rúman helming þeirra sex mánaða sem námið varir. Á hverju ári er boðið upp á sérnám á 3-4 brautum, sem tekur á bilinu 4-5 mánuði.

Hjá Matís hafa allir nemendur skólans fengið kennslu í grunnáfanga um gæði og vinnslu fisks og í beinu framhaldi hafa nemendur á gæðalínu skólans fengið kennslu og verklega þjálfun.

Alls hafa 286 nemendur farið í gegnum skólann frá samtals 48 löndum. Alls hófu 22 nemendur nám við skólann haustið 2014.

Námsgreinar sem Matís mun hafa yfirumsjón með tengjast beint innihaldi, meðferð og framleiðslu matvæla og spannar um fjórðung af námi í viðskiptafræði. Með umsjón með náminu mun Matís skipuleggja og annast kennslu í mörgum þeim námskeiðum sem tengjast matvælarekstrarfræðinni beint. Námskeiðin eru til að mynda í næringarfræði, örverufræði matvæla, matvælavinnslu, matvælalöggjöf og gæðamálum.

Landbúnaðarháskólinn

Starfsmenn Matís hafa haft umsjón með og skipulagt námskeið í gæðum og vinnslu búfjárafurða fyrir BS nemendur í búvísindum

Háskólinn á Hólum

Háskólinn á Hólum og Matís eru í sameiginlegu húsnæði í Verinu á Sauðárkróki og vinna saman að mörgum verkefnum.

Háskólinn í Reykjavík

Hefur átt í samtarfi við Matís í tengslum við fjölmörg nemendaverkefni. Auk þess hafa starfsmenn frá Matís komið að kennslu í meistaranámi við tækni- og verkfræðideild háskólans.

Háskólasamstarf - erlendir háskólar

Háskólinn í Flórída

Hörður G. Kristinsson, rannsóknarstjóri Matís, er aðjúnkt með prófessorsstöðu við Háskólann í Flórída. Þar hefur hann verið leiðbeinandi bæði meistara- og doktorsnema sem hafa unnið í sameiginlegum verkefnum Matís og Háskólans í Flórída. Gott samstarf hefur verið milli Matís og háskólans og ýmis verkefni notið góðs af því og nemendur frá Háskólanum í Flórída hafa unnið að sumarverkefnum hjá Matís auk þess sem prófessora þaðan hafa haldið erindi hjá Matís.

Samstarfsyfirlýsing er á milli Háskóla Íslands, Matís og Tokyo University of Marine Science and Technology um starfsmanna- og nemendaskipti.

Matís er í samstarfi við fjölda háskóla á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu í gegnum rannsóknaverkefni þar sem aðkoma og þjálfun nemenda í framhaldsnámi skiptir miklu máli. Þá hafa starfsmenn Matís einnig verið andmælendur doktorsverkefna við ýmsa skóla.