Viltu búa til matvæli?

Eins og fram hefur komið undanfarin misseri hefur þrengt talsvert að heimaframleiðslu hvers konar. Mikilvægt er að aðstæður sé með þeim hætti við framleiðslu matvæla að ekki séu veikir hlekkir í gæðakeðju matvælaframleiðslunnar.

Mörgum blöskrar hversu dýrt það er að koma á fót matvælaframleiðslu. Kostnaður við tækjabúnað er mikill og ekki allir með aðstöðu sem býður upp á framleiðslu matvæla í stórum eða smáum stíl.
Matís á og rekur Matarsmiðjur á nokkrum stöðum á landinu. Matarsmiðjurnar eru búnar helstu tækjum til matvælavinnslu og öll aðstaða eins og best verður á kosið og uppfylla þær kröfur sem lög og reglur um veitingu starfsleyfis krefjast. 

Ef um vöruþróun eða framleiðslu til einkanota er að ræða þarf framleiðandi/frumkvöðull ekki sérstakt framleiðsluleyfi en það þarf hann hinsvegar ef framleiða á matvörur til sölu og dreifingar. Slík leyfi eru útgefin af heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga á hverjum stað fyrir sig. Starfsmenn Matís í matarsmiðjum veita allar nauðsynlegar upplýsingar um framleiðslumöguleika hverrar stöðvar fyrir sig og einnig upplýsingar um skilyrði Heilbrigðiseftirlits.

Nánari upplýsingar um Matarsmiðjur Matís má finna hér.