Fréttir

Rannsóknir á aukinni nýtingu síldar til manneldis

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Norðmönnum hefur gengið vel með rannsóknir á fullnýtingu á síld. Rannsóknirnar hafa staðið yfir í þrjú ár og útkoman er sú að hægt er að nýta það sem til fellur eftir flökun í einar 17 ólíkar afurðir. Hér á landi eru rannsóknir af þessu einnig í gangi hjá Matís.

Í frétt í norska sjávarútvegsblaðinu FiskeribladetFiskaren segir að rannsóknin hafi miðað að því að skapa uppsjávarvinnslunni í Noregi meiri tekjur fyrir afurðir sínar með aukinni vinnslu til manneldis.

„Við horfum á þessar aukaafurðir sem hráefni til fiskmjölsframleiðslu eins og staðan er núna. Norðmenn hafa verið að reyna að búa til afurðir til manneldis úr aukahráefnunum. Við höfum verið að skoða þetta líka, hvort sem þær fara til fiskmjölsframleiðslu eða til manneldis. Verð á fiskimjöli er ævintýralega hátt og nýting á þessu síldarhráefni er mjög há í bæði mjöl og lýsi. Þetta háa verð verður þó ekki um alla eilífð og þess vegna erum við einnig að skoða leiðir til aukinnar manneldisvinnslu,“ segir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Hann segir að stóri aðstöðumunurinn sé sá að Norðmenn hafi úr margfalt meira fjármagni að moða í rannsóknir.

„Rannsóknarsjóður þeirra heitir FHF. Meðan AFS-sjóðurinn okkar minnkar frá ári til árs stækkar FHF-sjóðurinn (Fiskeri og havbruk Fonden) stöðugt. Staðan er mjög ójöfn hvað þetta varðar. Við höfum náð mjög langt með samstarfi við fyrirtækin í landinu. Það hefur verið styrkur okkar Íslendinga hvað fyrirtækin hafa verið dugleg að taka þátt í þróuninni.“

Sigurjón segir að Íslendingar hafi langt því frá þurrausið þau tækifæri sem liggja í frekari nýtingu á sjávaraflanum. Þar liggi undir milljarðar króna ónýttir.

Þegar best lét fóru á um 300 milljónir króna úr AVS-sjóðnum til rannsókna. Norski FHF-sjóðurinn veitir á 215 milljónum norskra króna til rannsókna 2014 en voru 185 milljónir árið 2013, sem er hátt í fimm milljarðar íslenskra króna.  

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís.

Viðtalið við Sigurjón Arason birtist fyrst í Fiskifréttum.