Skiptir máli að hafa aðgang að fyrirtæki á borð við Matís

  • Logo KS

„Vissulega skiptir máli fyrir framleiðslufyrirtæki eins og okkar að hafa aðgang að rannsóknafyrirtæki á borð við Matís."

"Mjólkuriðnaður á Íslandi er lítil grein sem ekki stendur undir mikilli nýsköpun eða grunnrannsóknum innanlands heldur nýtum við þá vinnu erlendis frá. En við getum engu að síður nýtt okkur ýmsa þætti og samstarf við Matís, okkur til hagsbóta,“ segir Jón Þór Jósepsson, gæðastjóri Mjólkursamlags KS á Sauðárkróki.

Matís og Mjólkursamlag KS hafa átt samleið í tveimur verkefnum nýverið. Annað verkefnið snerist um að nýta þá miklu ostamysu sem til fellur í vinnslu hjá samlaginu og að því verkefni hefur fyrirtækið Iceprotein á Sauðárkróki einnig komið. Sérstaklega er horft til að gera kostnaðaráætlun og arðsemisreikninga fyrir þessa vinnslu.

„Í hinu verkefninu fengum við iðnaðarverkfræðinema frá Háskóla Íslands undir handleiðslu Sveins Margeirssonar, hjá Matís, til að fara í gegnum alla okkar starfsemi, framleiðslu- og verkferla.  Við væntum þess að út úr því fáum við hugmyndir um leiðir til að auka hagkvæmni í starfseminni því athugunin tók til allra þátta - allt frá vinnutímatilhögun yfir í einstaka framleiðsluferla,” segir Jón Þór.