Fréttir

Endurnýjanleg orka í fiskmjölsiðnaði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ísland vill með ábyrgum hætti taka á þeim vanda sem steðjar að, sé ekkert aðhafst, í loftlagsmálum en í því samhengi má nefna að Ísland gerðist fyrir lok árs 2015 aðili að Parísarsamkomulaginu.

Mikilvægt er að nýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið frá athafasemi okkar. Í virðiskeðjum sjávarfangs er eftir miklu að slægjast varðandi bætt umhverfisáhrif frá veiðum og vinnslu. Liður í bættum áhrifum af vinnslu sjávarfangs er raforkuvæðing fiskmjölsframleiðslu á Íslandi en mikilvæg skref hafa einmitt nýlega verið stigin í þeim efnum.

Eins og greint var frá í aðdraganda vorfundar félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda (FÍF) hafa félagið og Landsvirkjun tekið höndum saman um að stuðla að aukinni notkun endurnýjanlegrar orku í fiskmjölsiðnaði eins kom fram í viljayfirlýsingu sem Jón Már Jónsson formaður FÍF og Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar undirrituðu. Eins og verkast vill í íslensku samfélagi flýgur gjarnan fiskisagan.

Á opnum fundi Hafsins Öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins um loftslagsmál – áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi, fimmtudaginn 6. apríl, vék Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra máli sínu að framangreindum áformum í opnunarerindi.

“Ágætt dæmi um árangur í loftslagsmálum að frumkvæði atvinnulífsins er rafvæðing fiskimjölsverksmiðja. Þar hafði greinin sjálf frumkvæði að því að skipta úr olíu í rafmagn. Allir munu vera sammála um ágæti þess, auk loftslagsávinningsins minnkar loftmengun og starfsskilyrði batna við rafvæðingu. Það hafa hins vegar verið blikur á lofti vegna hækkaðs raforkuverðs. Ég fagna þess vegna nýgerðri viljayfirlýsingu Landsvirkjunar og Félags íslenskra fiskimjölsframleiðenda um að auka hlut endurnýjanlegrar orku við fiskimjölsframleiðslu.”

Á fundinum kom í ljós almenn ánægja með framangreind áform. Hörður Arnarson sagði frá því að til þess að Landsvirkjun og FÍF gátu komið sér saman um framangreinda viljayfirlýsingu þurfti til gagnkvæman skilning á rekstri og rekstrarumhverfi hvors aðila. Hafði Hörður á orði að fiskmjölsverksmiðjur væru tæknilega krefjandi viðskiptaaðili m.t.t. eðlis rekstrarins og óvissu.

Þá sagði Hörður að aðkoma Matís hefði átt þátt í þeirri niðurstöðu sem að endingu varð.

Þetta er einungis eitt dæmi um það að með samstilltum aðgerðum getum við náð árangri í þessum málum sem öðrum og haft áhrif á þróun mála.

Í því samhengi má benda á að ársfundur Landsvirkjunar fer fram í dag, miðvikudaginn 26. apríl kl. 14:00 á Hilton Reykjavík Nordica.

#lvarsfundur