Fréttir

Handverkssláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hjá handverkssláturhúsinu í Seglbúðum í Landbroti starfar fumkvöðull sem leitaði til Matís um úrlausn sinna mála. Erlendur  Björnsson bóndi hafði lengi haft áform um að koma sér upp kjötvinnslu, til að vinna afurðir úr eigin hráefni. Til þess hafði hann hugsað sér að nýta stóra skemmu við bæinn,  sem hann hafði komið sér upp fyrir nokkrum árum, en var fremur illa nýtt, mestmegnis sem geymsla fyrir tæki og tól.

Eftir nokkra yfirlegu, voru menn ásáttir að húsnæðið mætti eins nýta sem sláturhús af minni gerðinni, auk hefðbundinnar kjötvinnslu. Má segja að ekki sé hægt að komast nær hugmyndafræðinni „Beint frá býli“.

Í hönd fór mikill undirbúningur, sem byggðist m.a. á hönnun og skipulagningu sláturhússins og þeirra verkferla sem þar er krafist og einnig fór mikill tími í samskipti við opinbera eftirlitsaðila þar sem þetta var fyrsta sláturhús sinnar tegundar á landinu. Þá þurfti að sannfæra leyfisveitendur og eftirlitsaðila að jafnvel lítil sláturhús, með takmarkaðan mannafla, þar sem verkferlar byggja meira á handverki en sjálfvirkni, geti uppfyllt allar kröfur sem gerðar eru til sláturhúsa. Nú eru liðnar tvær sláturtíðir frá opnun sláturhússins á þeim tíma hefur verið staðfest að afurðir hússins eru orðnar mjög eftirsóknaverðar enda annáluð gæði hvort heldur litið sé til hollustuhátta eða bragðs og áferðar.

Næstu skref þeirra Erlends Björnssonar og Þórunnar Júlíusdóttur, frumkvöðlana í Seglbúðum í samstarfi við Matís, eru að auka starfssemi hússins og er undirbúningur stórgripasláturhúss, þ.e. nauta og hrossaslátrun, þegar kominn af stað. Sú starfssemi mun styrkja starfssemina og skapa nokkur störf í sveitinni til viðbótar þeim sem urðu til við opnun sauðfjársláturhússins.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.