Landbúnaður

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Efnasamsetning landbúnaðarafurða er lykillinn

Íslenskur landbúnaður hefur reynst Íslendingum mikilvægur þó mikilvægi hans hafi minnkað í sögulegu samhengi undanfarin ár og áratugi. Nýsköpun í framleiðslu landbúnaðarafurða hefur verið töluverð en enn má þó í bæta.

Nýsköpunin tók ákveðinn kipp, sérstaklega á meðal minni aðila og frumkvöðla, í kjölfar verkefnisins “Stefnumót hönnuða og bænda” en verkefnið var samstarfsvettvangur Listaháskóla Íslands, Matís, Erpstaða, Löngumýri, Hala í Suðursveit og Möðrudal á fjöllum, með styrkjum frá Tækniþróunarsjóði Rannís, Framleiðnisjóði Landbúnaðarins og Hönnunarsjóði Auroru. Stefnumót hönnuða og bænda var nýsköpunarverkefni Listaháskólans þar sem vöruhönnuðum og bændum var teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki og hófst það 2008 og lauk 2011.

Matís hefur lagt sitt af mörkum til íslensks landbúnaðar með sérfræðiþekkingu, rannsóknum og nýsköpunarverkefnum sem leitt hafa til framleiðslu á úrvals matvælum sem ratað hafa á markað. Auk þess hefur Matís stuðlað að nýsköpun í landbúnaði með svokölluðum Matarsmiðjum sem staðsettar hafa verið á lykil stöðum um allt land, oft tímabundið, sem gefið hafa frumkvöðlum tækifæri til að þróa vörur sínar í vottuðum eldhúsum, vel tækjum búnum, og leggja þannig grunninn að bættri nýtingu vannýtra hráefna úr nærumhverfinu og aukinni verðmætasköpun landbúnaðarins um allt land.

Ný tækifæri leynast fyrir íslenskan landbúnað á komandi árum. Aukinn straumur ferðamanna býður upp á markaðssetningu hér á landi á hreinum og ómenguðum matvælum framleiddum úr úrvals hráefnum til neytenda sem tilheyra mun stærri markaði en hér er. Gott orðspor, þar sem heilindi eru höfð að leiðarljósi í allri framleiðslu og markaðssetning þar sem vísindaupplýsingar eru nýttar á réttan hátt til að koma á framfæri lykil eiginleikum íslenskra matvæla, er undirstaða allrar verðmætasköpunar. Neytendur í dag vilja nefnilega ekki bara matvæli sem bragðast vel, innihalda gæða hráefni og eru framleidd með sjálfbærum hætti þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni, heldur vilja neytendur auk þess að matvælin hafi jákvæð áhrif á líkamsstarfssemi og heilsu, áhrif sem staðfest eru með niðurstöðum vísindarannsókna.

Íslensk matvælaframleiðsla er í þessu samhengi í lykilstöðu!

IS