Fréttir

28 ára fangelsi fyrir salmonellusmit – matvælaöryggi er undirstaða allrar matvælaframleiðslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir nokkrum dögum bárust okkur fréttir af því að forsvarsmenn hnetuframleiðanda hefðu verið dæmdir í 20 og 28 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í útbreiðslu salmonellu mengaðra matvæla. Ekki er ætlunin með þessari frétt að leggja nokkurn mat á þær fréttir en áhugavert er að velta fyrir sér mikilvægi öruggra matvæla þegar slíkar fréttir berast.

Í flestum matvælaframleiðslufyrirtækjum er ljóst að framleiðsla og sala matvæla getur ekki átt sér stað án þess að matvælin séu heilnæm og örugg til neyslu. Örugg matvæli eru forsenda viðskipta með mat og aukinheldur byggir öll nýsköpun í matvælaiðnaði á því að framleidd séu matvæli sem séu örugg til neyslu. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í matvælaframleiðslu er mikilvægt að tryggja að öll aðstaða sé í samræmi við lög og reglur og að öll meðhöndlun matvæla, hvort sem er við hráefnaöflun, framleiðslu, pökkun, dreifingu, sölu eða hvar sem er í virðiskeðju matvæla, sé með þeim hætti að ekki skapist vá fyrir neytendur við neyslu matvæla.

Örugg matvæli

Sjúkdómsvaldandi örverur geta borist í matvæli á ýmsan hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að tileinka sér góða starfshætti við framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Með góðum starfsháttum og innra eftirliti matvælafyrirtækja, fræðslu, rannsóknum og opinberu eftirliti hefur tekist að halda sjúkdómstilfellum vegna matarsýkinga og matareitrana í lágmarki hér á landi.

Á síðustu árum hefur framleiðsla aukist á matvælum sem hafa verið þróuð og framleidd í litlu magni frá býli eða úr héraði. Með auknum umsvifum í framleiðslu fjölbreyttra matvæla er þörf á að vekja athygli á þeim vágestum eða sjúkdómsvaldandi örverum sem geta borist með matvælum.

Með aukinni þekkingu á eiginleikum og smitleiðum þeirra ættu neytendur, matvælaframleiðendur og aðrir áhugamenn um matvælavinnslu að geta tryggt öryggi þeirra matvæla sem þeir meðhöndla. Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á öryggi þeirra afurða sem þeir framleiða.

Alþjóðleg samvinna Matís við BfR

Hjá Matís er unnið að að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem einkum er lögð áhersla á heilnæmi og öryggi matvæla. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti eru að þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er einnig unnið með erlendum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni. Sem dæmi um þetta er afar farsælt samstarf við BfR (Federal Institute for Risk Assessment) en frá árinu 2012 hefur Matís átt í miklum samskiptum við þessa stóru og öflugu stofnun .

Helstu rannsóknaverkefni eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Meðal verkefna eru aðferðaþróun og prófun aðferða, rannsóknir á afkomu örvera í matvælum og umhverfi, vöktun örvera og áhrif hreinlætisaðgerða á örverur. Efnarannsóknir eru m.a. á aðskotaefnum og varnarefnum í matvælum. Þar undir heyra t.d. rannsóknir á snefilefnum í sjávarafurðum og ýmsum varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Frétt um þetta má finna á vefsvæði Kjarnans.