Aðalfundur Matís vegna 2016

19.5.2017

Aðalfundur Matís vegna starfsársins 2016 fór fram í gær kl. 13 að Vínlandsleið 12. Dagskrá fundarins var venju samkvæmt eins og kveðið er á um í samþykktum fyrir félagið.

Stjórn Matís eftir aðalfund er sem hér segir:

  • Sjöfn Sigurgísladóttir - formaður 
  • Auðbjörg Ólafsdóttir
  • Guðmundur Gunnarsson
  • Heiða Kristín Helgadóttir
  • Karl Ægir Karlsson
  • Sigrún Traustadóttir
  • Sindri Sigurgeirsson

Úr skýrslu stjórnar

Matís er vísinda og þekkingarsamfélag sem byggir á sterkum rannsóknarinnviðum og traustu iðnaðarsamstarfi. Hlutverk Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu og að bæta lýðheilsu.  Matís hóf störf 1. janúar 2007. Síðan þá hefur fyrirtækið jafnt og þétt eflst á innlendum vettvangi og sem alþjóðlegt rannsóknafyrirtæki. Matís er í dag stærra, öflugra og framsæknara fyrirtæki en fyrir 10 árum, sem undirstrikar að stofnun þess á sínum tíma var rétt.  Matís er ekki hluti af opinberu eftirliti. Slíkt eftirlit er á forræði Matvælastofnunar sem kaupir m.a. mæliþjónustu af Matís.

Stærstur hluti starfsemi Matís er rannsóknaþátturinn, fjölbreytt verkefni, stór og smá, verkefni unnin með innlendum fyrirtækjum og á alþjóðavettvangi. Rannsókna- og nýsköpunarverkefni skila niðurstöðum sem miklu skiptir að áfram sé unnið með, að þær séu nýttar til breytinga og framþróunar – að þær séu innleiddar hjá fyrirtækjum og fjárfestum.  

Árið 2016 var tíunda starfsár Matís. Við héldum upp á afmælið með því að bjóða starfsmönnum og fjölskyldum þeirra upp á sannkallaða vísindafjölskylduskemmtun í febrúar á þessu ári. Matís býr að gríðarlegum mannauði og það var svo sannarlega gaman að fá fjölskyldur starfsmanna til okkar. Áhuginn leyndi sér ekki meðal gesta sem fjölmenntu að höfuðstöðvum fyrirtækisins að Vínlandsleið 12. 

Lífhagkerfið og framtíðartækifæri innan þess eru áhersluefni í rannsóknum og þjónustu Matís á komandi árum. Líkt og allt annað í okkar heimi taka rannsóknir breytingum og þróast yfir lengra tímabil. Í dag eru rannsóknaverkefni þverfaglegri og heildstæðari en áður var, meira er horft á heildarmynd rannsóknarefna. Í þessu liggur einmitt einn ef helstu styrkleikum Matís, fjölbreytni í þekkingu og jafnframt þekking og geta til mjög afmarkaðra rannsókna.

Fjárfestar, OECD, Alþjóðabankinn og fleiri alþjóðastofnanir horfa í auknum mæli til sjálfbærrar nýtingar auðlinda hafanna til að tryggja efnahagslegan vöxt og velferð fyrir 9 milljarða jarðarbúa á næstu áratugum. Matís hefur á liðnum árum lagt áherslu á þessi tækifæri í okkar alþjóðastarfi, enda felast í þeim framtíðartækifæri í starfi Matís og fyrir verðmætasköpun á Íslandi. Alþjóðavæðing er komin til að vera og hún snertir fjárfestingar, rannsóknir, framleiðslu, markaðsstarf og virðiskeðju lífhagkerfisins alls. Hún hefur drifið tæknilegar umbyltingar sl. ára og mun gera í enn ríkara mæli á komandi árum.

Stefna Matís er að vera framsækið þekkingarfyrirtæki sem eflir samkeppnishæfni Íslands og skilar þannig tekjum til íslenska ríkisins og jafnframt að vera eftirsóttur, krefjandi og spennandi vinnustaður með fyrsta flokks aðstöðu þar sem hæft og ánægt starfsfólk fær tækifæri til að vaxa og njóta sín í starfi.

Markmið Matís er að vera leiðandi í krefjandi heimi nýsköpunar og með þetta krefjandi umhverfi og tækifæri í bakgrunni var unnin umfangsmikil stefnumótunarvinna á árinu 2016.  Í stefnu Matís er lögð áhersla á öfluga miðlun og innleiðingu niðurstaðna, ásamt því að byggja upp sterka innviði sem þjónað geta rannsóknum í fremstu röð á sviði öruggrar virðiskeðju matvæla, þróunar vara og innihaldsefna og könnunar og hagnýtingar erfðaauðlinda.

Gildi Matís eru heilindi, metnaður, sköpunarkraftur og frumkvæði. Með þessi gildi að leiðarljósi hefur starfsfólk Matís á síðastliðnum 10 árum byggt upp myndarlegan höfuðstól á formi innviða, ferla og færni. Á næstu 10 árum viljum við enn frekar hafa áhrif á þessum sviðum fyrir Ísland, íslenska ríkið og aðra viðskiptavini okkar innanlands sem utan – fjárfesta, fyrirtæki, stofnanir, samtök og einstaklinga.

Árangur Matís í gegnum tíðina er svo sannarlega eftirtektarverður og mig langar til að nefna nokkur dæmi frá árinu 2016:

Matís náði þeim frábæra árangri á árinu 2016 að vera í  hópi 50 fyrirtækja og stofnana í Evrópu sem urðu hlutskörpust í samkeppni um 400 milljón evra fjárfestingu Horizon 2020 áætlunarinnar í EIT FOOD. Í þessum hópi eru t.d. fyrirtæki á borð við Pepsico og háskólar á borð við Cambridge háskóla. Heildarfjárfesting í EIT FOOD er áætluð yfir 200 milljarðar íslenskra króna á 7 árum.

Á árinu varð Matís, ásamt samstarfsaðilum, hlutskarpast í samkeppni um verkefni sem ætlað er að bæta fiskveiðistjórnun og nýtingu fiskistofna sem Evrópuþjóðir hafa aðgang að utan lögsögu Evrópu. Verkefnið hefur fengið heitið FARFISH, en tekjur Matís vegna þess eru um 1,2 milljónir evra á árabilinu 2017-2020. Heildartekjur Matís vegna alþjóðlegra rannsóknaverkefna voru á árinu 2016 um 480 milljónir evra og voru ríflega 2500 milljónir  evra frá 2007-2016.

Fleiri dæmi um árangur 2016:

  • Samstarf Matís, Skaginn/3X, FISK Seafood og fleiri um þróun ofurkælingar fékk Svifölduna á Sjávarútvegsráðstefnunni í haust, en Svifaldan er verðlaun sem veitt eru fyrir mestu framúrstefnuhugmynd í sjávarútvegi á hverju ári.
  • Á árinu fór áhorf á myndbönd Matís á Youtube yfir 120 þúsund, fyrirtækið hefur fleiri en 5000 fylgjendur á Facebook sem tengjast oftar en 10 þúsund sinnum á mánuði og taka þátt í umræðum síðunnar oftar en 6 þúsund sinnum á mánuði. Við erum í dag með fleiri en 6 þúsund fylgjendur á Twitter. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að Matís er að ná að miðla vísindaupplýsingum til almennings.
  • Matís hefur tekið þátt í og leitt menntun á sviði verkfræði, hönnunar og fleiri fræðigreina, en sérstaklega á sviði matvælafræði. Við höfum tengt saman háskólanám og atvinnulífið með góðum árangri, sem hefur leitt til þess að fjölmargir einstaklingar í atvinnulífinu í dag hafa fengið menntun og reynslu tengda Matís og búa að því í núverandi starfi sínu. Fyrir vikið hlotnaðist samstarfi Matís og Háskóla Íslands um nám í matvælafræði verðlaunin Fjöreggið frá Matvæla- og næringarfræðafélags Íslands á árinu 2016.

Matvælaöryggi spilar lykilhlutverk í verðmætasköpun matvælaiðnaðar í dag. Líklega mun áhersla á matvælaöryggi og heilindi í matvælaframleiðslu enn aukast á næstu árum, þegar teknar verða upp tilvísunarrannsóknastofur á sviði matvælaheilinda (food integrity). Íslenska ríkinu er skylt að útnefna tilvísunarrannsóknastofur til að framfylgja ákvæðum evrópsku matvælalöggjafarinnar, en tilvísunarrannsóknastofur eru mikilsverður liður í því að gera flutning matvæla milli Evrópulanda auðveldari og opnar evrópska markaðinn fyrir íslenska framleiðendur en eykur um leið allt öryggi í slíkum flutningum þar sem allir vinna samkvæmt sömu kröfum og reglum. Á sviði efna og örverumælinga er skilgreint 21 svið og í árslok 2016 hafði Matís fengið útnefningu sem tilvísunarrannsóknastofa fyrir 14 þessara sviða. Þetta er dæmi um hið vaxandi hlutverk sem Matís hefur í matvælaöryggi hér á landi.

Tekjur Matís á árinu 2016 voru samtals 1615 milljónir. Rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði var um 28,5 milljónir, en að teknu tilliti til fjármagnsliða og skatta var hagnaður félagsins rúmar 9 milljónir. Munar þar mestu um sterka stöðu krónunnar, en ríflega þriðjungur af heildartekjum Matís var í erlendri mynt á árinu 2016.

Heildarfjöldi starfsmanna í árslok var 114. Alls eru 12 starfsmenn iðnmenntaðir og 93 háskólamenntaðir, þ.a. 28 með doktorsgráðu og 10 í doktorsnámi. Niðurstöður starfsánægjukönnunar árið 2016 voru jákvæðar og sýna fram á bætt vinnuumhverfi hjá Matís, en það var ein af lykiláherslum stefnumótunar félagsins.  Slíkt er sannarlega hvatning til að gera enn betur.


Fréttir