Fréttir

Aðstaða til fiskeldisrannsókna hjá Matís : MARS

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís hefur yfir að ráða góðri aðstöðu og öflugu liði sérfræðinga á sviði fiskeldisrannsókna, þá sér í lagi hvað varðar fóður og atferli fiska.

Í tilraunaeldisstöð Matís sem í daglegu tali er kölluð MARS (Matís Aquaculture Research Station), eru þrjú fiskeldiskerfi sem saman standa af tveimur RAS kerfum (Recirculation Aquaculture System) og einu gegnumstreymis kerfi.

  • RAS 1 samanstendur af 36 kerum sem hvert um sig tekur um 200 lítra af vatni/sjó.
  • RAS 2 samanstendur af 24 kerum sem hvert um sig tekur um 800 lítra af vatni/sjó.
  • Gegnumstreymiskerfið samanstendur af 48 kerum sem hvert um sig tekur um 20 lítra af vatni.

Í MARS eru meðal annars þróuð og framleidd fóður úr nýjum próteinum, auk þess sem framkvæmdar eru vaxtar- og meltanleikatilraunir á ýmsum fisktegunum. Einnig er mikil ásókn frá fóðurframleiðendum og fiskeldisfyrirtækjum víðsvegar um heim í þjónustuverkefni í MARS. Í þeim er meðal annars framleitt fóður úr hráefni sem þessir aðilar eru að þróa (eða kaupa af sínum birgjum) og svo eru þá framkvæmdar vaxtar- og/eða meltanleikatilraunir á fóðrinu.

Í MARS er unnið með mismunandi fisktegundir, sem og fiska á mismunandi æviskeiðum, allt frá seiðum upp í fullvaxinn fisk. Þær tegundir sem haldnar hafa verið í MARS eru Atlantshafs lax, beitarfiskur (tilapia), silungur, regnbogasilungur, hvítleggjarækjur og ostrur.

Það eru fáar tilraunaeldisstöðvar í heiminum sem geta boðið upp á sambærilega þjónustu og Matís hvað varðar fóðurgerð og fiskeldisrannsóknir. Þar að auki eru mikil samlegðaráhrif með öðrum sviðum innan Matís eins og t.d. efnamælingum, örverumælingum, skynmati, vinnslu, vöruþróun o.s.frv. Það er mikil ásókn í samstarf við Matís á sviðum fóðurs og fiskeldis, bæði í rannsóknarverkefnum og þjónustuverkefnum.

Við hjá Matís erum mjög stolt af þeirri aðstöðu og þekkingu sem til er innan fyrirtækisins og horfum björtum augum til framtíðar fiskeldis og fiskeldisrannsókna.