Fréttir

Afurðir íslenskra geita henta í matvæli

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Um þessar mundir má finna fjölbreyttar umfjallanir og líflegar umræður um geitfjárrækt á ýmsum frétta- og samfélagsmiðlum. Kveikjan að þessu var umsögn með höfnun sem barst umsækjanda í Matvælasjóð en sá var eini umsækjandinn úr hópi geitfjárræktenda á Íslandi. Umsögnin hefur fengið töluverða athygli vegna þess að hún þykir bera merki um fordóma og fáfræði umsagnaraðila á stöðu geitfjárræktarinnar hér á landi í dag.  

Geitfjárræktarfélag Íslands hefur verið starfrækt í 30 ár en hlutverk félagsins er að stuðla að verndun og ræktun íslenska geitfjárstofnsins og leita leiða til að bæta nýtingu og auka verðmæti geitaafurða. Íslenski geitastofninn telst vera í útrýmingarhættu þar sem aðeins tæplega 1500 gripir eru til. Riða sem kom upp í Skagafirði síðasta haust tók sinn toll af stofninum auk þess sem sauðfjárveikivarnarlínur gilda einnig fyrir geitfé. Töluverð skyldleikaræktun hefur verið í stofninum en það hefur áhættu í för með sér fyrir framtíð stofnsins. Því er mikilvægt að fjölga í stofninum og ein lykil forsenda fyrir því er að þróa sem flestar geitfjárafurðir.Matís hefur unnið að allnokkrum verkefnum með félaginu en þau hafa öll haft það að markmiði að kanna, eða þróa gæði og nýtingarmöguleika geitfjárafurða og miðla upplýsingum um þetta efni til geitfjárbænda og almennings. Lykilniðurstaðan er að afurðir íslenskra geita henta ágætlega í fjölbreytt matvæli sem eru holl og hafa margvíslega sérstöðu. Hjá Matís voru teknir saman einblöðungar um þetta efni, t.d. einblöðungur um gæði geitfjárafurða í alls kyns matvæli. Einnig hafa verið gefnar út skýrslur um geitfjárafurðir, til dæmis um næringargildi geitfjárafurða og sérstöðu afurða íslenskra geita með áherslu á þá ótal möguleika sem eru á vöruþróun og framleiðslu.

Þegar fjallað er um geitfjárafurðir er um fjölmargar athyglisverðar afurðir að ræða. Mjólkurafurðir, kjötafurðir, stökur (gærur), skinn og garn eru meðal þeirra og hafa sumar afurðir náð vinsældum víða um heim. Sem dæmi má nefna að geitaostur þykir sérstakt ljúfmeti í mörgum löndum og hefur einnig rutt sér til rúms hérlendis, á Ítalíu er geitamjólkurís vinsæll og í Póllandi er sælgæti framleitt úr geitamjólk. Geiturnar sjálfar gefa svo fjölmörg tækifæri í ferðaþjónustu enda eru þær þekktar fyrir uppátækjasemi og sérstakt útlit. Tískuvörugeirinn getur að auki unnið úr afurðum geita, bæði fatnað og muni.

Ljóst er að afurðir íslenskra geita henta vel í matvæli sem og í ýmsa verðmætasköpun. Fullt tilefni er til að halda rannsókna-, hugmynda- og þróunarvinnu á fjölbreyttum afurðum áfram, bæði í náinni og fjarlægri framtíð.