Fréttir

Áhrif pökkunaraðferða og geymsluhita á gæði cobia flaka í frystigeymslum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hằng Nguyễn Thị mun halda fyrirlestur á Matís, stofu 312, Vínlandsleið 12, föstudaginn 26. janúar kl.11. Verkefnið hennar heitir:  Áhrif pökkunaraðferða og geymsluhita á gæði cobia (Rachycentron canadum) flaka í frystigeymslum.

Enska heitið er: “Effects of packaging methods and storage temperature on the quality of Cobia (Rachycentron canadum) fillets during frozen storage”

Markmiðið með þessu verkefni var að rannsaka gæði og stöðugleika cobia (Rachycentron canadum) flaka sem var pakkað á mismunandi hátt og síðan geymd við mismunandi aðstæður. Annars vegar voru flökin geymd í opnum plastpokum hinsvegar í lofttæmdum plastpokum. Flökin voru síðan geymd í frystigeymslu í allt að 5 mánuði annars vegar við -18 °C og hins vegar við -25 °C. Á mánaðarfresti út geymslutímann voru gerðar mælingar á suðunýtingu, vatnsinnihaldi, styrk köfnunarefnis í heildarmagni rokgjarnra niturbasa (TVB-N), magni fosfólípíða (PL), myndun frírra fitusýra (FFA) og oxun (PV og TBARS ) til að meta áhrif umbúða og geymsluhita á gæði cobia flakanna.

Magn fosfólípíða minnkaði verulega og styrkur FFA jókst yfir geymslutímann og sýnir það að ensímvirkni var talsverð hjá öllum tilraunahópunum. Talsverðar breytingar voru á PV- og TBARS-gildum á meðan á geymslu stóð. Val á geymsluhitastigi og lengd geymslutímans höfðu mikil áhrif á niðurbrot lípíða. Lípíðin voru stöðugri við lægra geymsluhitastigið (-25°). Enn fremur sýndu niðurstöður að pökkun cobia flaka í lofttæmdar umbúðir dró verulega úr oxun eða þránun flaka samanborið við loftpökkuðu flökin. Athyglisvert var að cobia flök í lofttæmdum umbúðum geymd við -18 °C höfðu nokkuð betri gæði miðað við flök í hefðbundnum umbúðum sem voru geymd við lægri hita -25 °C.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason (HÍ/Matís), María Guðjónsdóttir (HÍ), Magnea Karlsdóttir (Matís), Tumi Tómasson (UNU-FTP). Nha Trang University (NTU) í Víetnam.

Prófdómari: Kristín Anna Þórarinsdóttir (Marel).