Fréttir

Allt í land!

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Komin er út skýrsla á vegum Matís er fjallar um hliðarafurðir frá bolfiskvinnslu á Íslandi. Í skýrslunni er greint frá hliðarafurðum sem unnar eru úr hráefni er til fellur við vinnslu á okkar helstu bolfisktegundum, hver þróun vinnslunnar hafi verið á síðastliðnum árum hvað varðar magn og verðmæti, auk þess sem fjallað er um lítið- eða ónýtt tækifæri í enn frekari fullvinnslu bolfisksafla.

Árið 2015 fór Danmörk með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og samhliða því var Færeyingum falið að móta vinnu á þeim vettvangi í kringum nýtingu í bláa lífhagkerfinu (e. Blue Bioeconomy). Sem hluti af formennskuáætluninni var hrundið af stað verkefninu „Alt i land“, þar sem kanna átti núverandi nýtingu og möguleika til bættrar nýtingar í bolfiskvinnslu í Færeyjum, Grænlandi, Noregi og Íslandi. Færeyska fyrirtækinu Syntesa var falið að leiða verkefnið og má sjá upplýsingar um uppsetningu og markið verkefnisins á heimasíðu færeysku formennskuáætlunarinnar.

Haldnir voru raðir vinnufunda í löndunum fjórum með hagaðilum, gögn greind og möguleikar kannaðir. Þar með talið var gerð hagkvæmniathugun á nokkrum helstu möguleikunum til aukinnar nýtingar. Niðurstöður verkefnisins hafa nú verið gefnar út í skýrslu á vegum Norrænuráðherranefndarinnar sem nálgast má.

Samhliða aðkomu Matís að verkefninu „Alt i land“ var unnin Matís-skýrsla þar sem teknar eru saman upplýsingar um nýtingu á mikilvægum bolfisktegundum við Ísland, gerð grein fyrir hvaða afurðir séu unnar úr því hráefni sem til fellur og möguleikar til aukinnar nýtingar á hliðarhráefni kannaðir. Skýrslan er aðgengileg á heimasíðu Matís.

Nánari upplýsingar veita  Jónas R. Viðarsson eða Ásbjörn Jónsson