Fréttir

Doktorsvörn – áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fimmtudaginn 15. júní ver Godfrey Kawooya Kubiriza doktorsritgerð sína við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfisk (The effects of dietary lipid oxidation on farmed fish).

Hvenær hefst þessi viðburður: 15. júní 2017 – 13:00
Staðsetning viðburðar: Aðalbygging
Nánari staðsetning: Hátíðarsalur

Andmælendur eru dr. Anders Kiessling, prófessor við Swedish University of Agricultural Sciences, Department of Animal Nutrition and Husbandry, Svíþjóð, og Þórarinn Sveinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi er Helgi Thorarensen, prófessor við Háskólann á Hólum, og Sigurður Snorrason, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild. Aðrir í doktorsnefnd eru Ólafur Sigurgeirsson, lektor við Háskólinn á Hólum, Anne M. Akol, Makerere University í Úganda, Jón Árnason, sérfræðingur hjá Matís, og Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Dr. Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti og prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands stýrir vörninni sem fer fram í Hátíðarsal aðalbyggingar hefst klukkan 13:00.

Ágrip af rannsókn

Þótt aðstæður til fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku séu góðar er fiskeldisframleiðsla á svæðinu ennþá fremur lítil. Helsta hindrun frekari vaxtar fiskeldis er skortur á hagkvæmu fóðri, sem framleitt er úr hráefnum af svæðinu. Í doktorsverkefninu voru gerðar tilraunir sem taka á þessu vandamáli: 1) Með því að skilgreina kjöruppsetningu vaxtartilrauna (heppilegasta fjölda fiska og endurtekninga meðferða) og bestu tölfræðiaðferðir til þess að greina gögnin. 2) Könnuð voru áhrif þránunar á lýsi í fóðri á fiska. Niðurstöðurnar benda til þess að þránun hafi ekki áhrif á vöxt Nílarborra (Oreochromis niloticus) í tjörnum þar sem gnægt er af þörungasvifi, ríku af andoxunarefnum. 3) Borin var saman andoxunarvirkni ethoxiquin (EQ), sem mikið er notað í fiskafóðri, og nýrra andoxunarefna: rósmarínolíu (RM; Rosmarinus officinalis) og blöðruþangs (BÞ; Fucus vesiculosus). Niðurstöðurnar benda til þess að RM geti hindrað þránun lýsis jafn vel og EQ auk þess að hvetja til betri vaxtar fiskanna en EQ eða BÞ. 4) Ný hráefni í fiskifóðri, sem framleidd eru í Úganda, voru prófuð. Niðurstöðurnar benda til þess að hagkvæmt sé að nota rækjuna Caradina nilotica, sem er meðafli úr fiskveiðum í Viktoríuvatni, í fóður og skipta þannig út fiskimjöli úr Rastrineobola argentea, sem nýta má beint til manneldis. Niðurstöður þessara tilrauna eru mikilvægt framlag til frekari þróunar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku, einkum framleiðslu fóðurs fyrir eldisfiska.

Um doktorsefnið

Godfrey Kawooya Kubiriza er fæddur 7. ágúst 1979 í Úganda. Foreldrar hans eru Yekosofati Kawooya Kayizzi og Khezia Nakiryowa frá Kikwayi í Mukono-héraði í Úganda. Godfrey er níundi í röð tólf systkina. Hann er lektor við Makerere University í Kampala.

Grunn- og framhaldskólamenntun sína fékk Godfrey í Bishop’s Central Primary School, Namakwa Senior Secondary School og Bishop’s Senior School í Mukono. Árið 2004 lauk hann B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræðum og fiskeldi frá Makerere University. Hann lauk meistaragráðu með láði árið 2009 frá háskólanum í Malaví, Bunda College, sem naut stuðnings frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Frá 2009 til 2010 var Godfrey styrkþegi Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og sérhæfði sig í fiskeldi við Háskólann á Hólum. Leiðbeinendur hans á Íslandi voru Helgi Thorarensen og Ólafur Sigurgeirsson við Háskólann á Hólum og Albert K. Imsland hjá Akvaplan Niva. Lokaverkefni Godfreys á Hólum fjallaði um skipulag tilrauna og tölfræðiúrvinnslu í fiskeldisrannsóknum.

Godfrey hóf doktorsnám við Háskóla Íslands árið 2011 með námsstyrk frá Sjávarútvegsskólanum. Lokaverkefnið á Hólum var hluti af doktorsverkefninu. Doktorsritgerð Godfreys fjallar um fjölbreytt efni, einkum áhrif þránunar fitu í fóðri á eldisfiska og leiðir til þess að forðast þránun, auk tölfræðiúrvinnslu í vaxtartilraunum. Niðurstöður rannsókna Godfreys eru mikilvægt framlag til frekari uppbyggingar fiskeldis í Úganda og Austur-Afríku.

IS