Doktorsvörn og M.Sc. fyrirlestrar í HÍ

26.9.2016

Nokkrir fyrirlestrar/varnir sem Matís tengist verða haldnir í vikunni. Um er að ræða fjóra M.Sc. fyrirlestra og eina doktorsvörn, en Paulina Elzbieta Wasik ver doktorsritgerð sína á föstudag kl. 13.

Doktorsvörn í matvælafræði - Paulina Elzbieta Wasik

Hvenær hefst þessi viðburður: 30. september 2016 - 13:00
Staðsetning viðburðar: AðalbyggingNánari staðsetning: Hátíðasal

Paulina Elzbieta Wasik ver doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild, sem ber heitið: Hámörkun gæða frosinna makrílafurða - Quality optimisation of frozen mackerel products

Andmælendur eru dr. Judith Kreyenschmidt, prófessor við Háskólann í Bonn, og Santiago Pedro Aubourg Martínez, prófessor við Marine Research Institute (IIM), sem er hluti af The Spanish Research Council (CSIC).

Umsjónarkennari var Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, en leiðbeining var í höndum Sigurjóns og dr. Maríu Guðjónsdóttur, dósents við sömu deild. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd, dr. Magnea Guðrún Karlsdóttir, fagstjóri hjá Matís, og dr. Hörður G. Kristinsson, rannsóknastjóri hjá Matís og dósent við University of Florida.

Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.
Ritgerðin byggir á vinnu sem unnin var í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin Skinney Þinganes, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, Samherja, Síldavinnsluna, HB Granda, Ísfélag Vestmannaeyja, og Thor-Ice með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Ágrip af rannsókn

Veiðar á makríl í umtalsverðu magni við Íslandsstrendur hófust fyrir tæpum tíu árum. Fyrstu árin fór stærsti hluti aflans í fiskmjöls- og lýsisvinnslu en aðeins lítill hluti hans fór til manneldis. Til að auka verðmæti aflans þarf að nýta stærri hluta hans til manneldis og til að svo geti orðið er mikilvægt að finna leiðir til að bæta geymsluþol makríls í frystigeymslu.

Makríll af Íslandsmiðum inniheldur mikið af ómega-3 fjölómettuðum fitusýrum (PUFA) og þar að auki hátt hlutfall af ómega n-3/n-6 en innihald og stöðugleiki fitu í makríl er breytilegur yfir veiðitímabilið. Stöðugleiki fitu er háður fitu- og efnainnihaldi makríls og niðurstöður sýna að feitari makríll er viðkvæmari fyrir oxun fitu (þránun) og ensímniðurbroti.

Löng geymsla í frystiklefum hefur í för með sér að makrílafurðir þrána og gæðin rýrna. Oxun fitu og ensímniðurbrot (myndun PV og TBARS og myndun FFA) er marktækt minna í makríl sem er geymdur við -25°C, samanborið við geymsluhitastigið -18°C. Að auki er minni hætta á losi og áferð afurða varðveitist betur við lægra geymsluhitastig.

Meiri ensímvirkni er í heilfrystum makríl samanborið við slægðan og hausaðan. Á hinn bóginn aflagast slægður og hausaður makríll meira í vinnslu og geymslu en sá heili. Það skal tekið fram að mikilvægt er að velja makríl með réttan eiginleika og rétta vinnsluleið til að fá afurð með tiltekna eiginleika.

Æskilegast er að geyma makrílafurðir frekar í frostgeymslu við -25°C en í -18°C og við stöðugar geymsluaðstæður til að tryggja gæði frosinna makrílafurða. Hægt er að nýta makrílinn, sem veiddur er við Íslandsstrendur og frystur í verðmætar afurðir eins og niðursoðnar og heitreyktar.

Um doktorsefnið

Paulina E. Wasik er fædd 1987. Hún lauk BSc-gráðu í líftækni árið 2009 frá University of Warmia and Mazury í Olsztyn í Póllandi. Þremur árum síðar, árið 2012, lauk Paulina MSc-gráðu í matvælafræði frá Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og innritaðist sama ár í doktorsnám við deildina. Að loknu BS-námi hóf Paulina störf við rannsóknir hjá Matís, þar sem hún starfar enn í dag. Rannsóknarsvið hennar er sem fyrr segir á sviði geymslu og ferskleika fiskafurða.

Paulina er gift Piotr Wasik og foreldrar hennar eru Barbara Romotowska og Krzysztof Romotowski.

Matvælafræði - MS fyrirlestur - Hildur Inga Sveinsdóttir

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 - 14:00
Nánari staðsetning: Matís - Vínlandsleið 12, stofa 312

Áhrif blóðgunaraðstæðna og geymsluaðferða á gæði þorsks (Effects of bleeding conditions and storage method on the quality of Atlantic Cod).

Niðurstöður  verkefnisins sýna að kæling við blæðingu gæti valdið því að flök verði rauðari. Þar sem litur flaks er mikilvægur þáttur í gæða og verðmati þess er ekki æskilegt að byrja kælingarferlið í blæðingartanki. Hitastigsbreytingin hafði meiri áhrif á ósaltuð flök en léttsöltuð. Það hvort einhver hreyfing er á blæðingarmiðli hefur áhrif á blæðingarafköst. Niðurstöður tilrauna gáfu til kynna að, upp að vissu marki, gæti blæðing í blæðingarmiðli sem sem er á hreyfingu verið afkastameiri en blæðing í óhreyfðu vatni. Þær gáfu líka til kynna að hversu mikil hreyfing er á blæðingarmiðli geti haft meiri áhrif á hversu hratt miðillinn er endurnýjaður.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís og Sæmundur Elíasson doktorsnemi við Háskóla Íslands.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin FISK Seafood, Samherja, HB Granda, Iceprotein, 3X Technology og Skagann með stuðningi Nordic Innovation, AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og Tækniþróunarsjóðs.

Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Matvælafræði - MS fyrirlestur - Inga Rósa Ingvadóttir

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 - 13:00
Nánari staðsetning: Matís - Vínlandsleið 12, stofa 312

Stöðugleiki léttsaltaðra þorskflaka (Gadus morhua) í frosti - Þættir sem hafa áhrif á stöðugleika og afurðarbreytileika.(Stability of lightly salted cod fillets (Gadus morhua) during frozen storage - Factors affecting the stability and the product variability).

Helstu niðurstöður voru þær að léttsöltun jók stöðugleika þorskflakanna, en þær niðurstöður eru mjög jákvæðar fyrir framleiðendur léttsaltaðra þorskflaka þar sem alltaf er verið að keppast við það að lengja geymsluþol fiskafurða. Afurðarbreytileiki léttsaltaðra þorskflaka á markaði er mjög mikill, en frekari rannsókna þarfnast til þess að átta sig á þeim breytum sem hafa mestu áhrifin á þennan breytileika.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason prófessor við matvæla- og næringarfræðideild og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við fyrirtækin FISK Seafood, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, Nesfisk og Jakob Valgeir með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Prófdómari: Dr. Kristín A. Þórarinsdóttir matvælafræðingur hjá Marel.

Uppboðskerfi fiskmarkaða - Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð

Hvenær hefst þessi viðburður: 29. september 2016 - 11:00
Nánari staðsetning: Matís - Vínlandsleið 12, stofa 312

Bjarni Rúnar Heimisson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í reikniverkfræði. Heiti verkefnisins er Uppboðskerfi fiskmarkaða - Þarfagreining uppboðskerfis og gerð spálíkans fyrir uppboðsverð.

Ágrip

Uppboðskerfi fiskmarkaða olli byltingu í sölu á fiski á Íslandi þegar það var kynnt til sögunnar og var það mikið hagsmunamál fyrir sjómenn og útgerðir á Íslandi. Þrátt fyrir að ýmsar leiðir hafi verið farnar til að bæta upplýsingaflæði og gagnsæi kerfisins með nýju upplýsingakerfi og heimasíðu þá virðist framboð enn vera sá þáttur sem hefur mest áhrif á verðmyndun sem veldur því að sjómenn og útgerðir virðast ekki vera að fá umbun fyrir bætta meðhöndlun.

Markmið þessa verkefnis var að finna þau atriði sem ættu að koma fram í uppboðslýsingu á fiskuppboðum en eru ekki til staðar. Framkvæmd var þarfagreining þar sem meðal annars voru tekin viðtöl við mismunandi hagsmunaaðila uppboðskerfisins. Einnig var framkvæmd línuleg aðhvarfsgreining á raungögnum sem fengin voru frá Reiknistofu fiskmarkaða hf. og þessi gögn síðan greind til að finna út hvaða þættir það eru sem hafa mestu áhrif á verð á fiskuppboði.

Í ljós kom að hagsmunaaðilar bentu á þó nokkra þætti þar sem bæta mætti upplýsingagjöf í uppboðskerfi fiskmarkaða. Nákvæmni spálíkansins sem fékkst er takmarkað þar sem fleiri þættir hafa áhrif á verðið en fram koma í uppboðslýsingu.

Leiðbeinendur: Ólafur Pétur Pálsson prófessor við við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigurjón Arason prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís.

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin var í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við Reiknistofu fiskmarkaðana, HB Granda, Nýfisks,og Toppfisks með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Prófdómari: Daði Már Kristófersson, prófessor, og forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Vinnsla, flutningur og geymsla á frosinni síld – Hitastigsbreytingar


Hvenær hefst þessi viðburður: 28. september 2016 - 10:30
Nánari staðsetning: Matís - Vínlandsleið 12, stofa 312

Finnur Jónasson flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði. Heiti verkefnisins er Vinnsla, flutningur og geymsla á frosinni síld – Hitastigsbreytingar.

Ágrip

Í þessu verkefni  voru skoðaðar hitastigsbreytingar síldar í gegnum landvinnslu og flutning frá Íslandi yfir í frostgeymslu erlendis. Þar sem hitastig fiskafurða hefur mest áhrif á geymsluþol og gæði afurða er nauðsynlegt að kortleggja hitaprófíl síldar í gegnum ferlið. Mælingar voru gerðar þegar blokkfryst síld var flutt erlendis bæði með frystiskipum og frystigámum. Þegar varan var flutt með frystiskipum varð hitaálag bæði við útskipun og uppskipun. Hitastigið í frystiskipunum hélst stöðugt ólíkt því sem búist var við en ekki var stillt á nægjanlega lágt hitastig í flutningunum.

Leiðbeinendur: Gunnar Stefánsson prófessor við við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigurjón Arason prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur við Matís og Magnea G. Karlsdóttir verkefnastjóri við Matís. 

Meistararitgerðin byggir á vinnu sem unnin er í samstarfi Matís og Háskóla Íslands við Síldarvinnsluna og Samherja með stuðningi AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Prófdómari: Jón Heiðar Ríkharðsson, vélaverkfræðingur.


Fréttir