• Krakkar_kokka

Efla fæðu- og umhverfisvitund barna

6.11.2020

Krakkar kokka, íslenski hluti Evrópuverkefnisins WeValueFood, fræðir börn meðal annars um sjálfbærni, fæðuauðlindir, umhverfisáhrif, næringu og staðbundna matargerð.

Evrópuverkefnið WeValueFood, styrkt af EIT Food, hefur komið af stað samstarfi við svokallaða matarmálsvara (Food Champions) sem hvetja og hafa áhrif á jafnaldra sína með því að deila þekkingu sinni um mat á samfélagsmiðlum. Í ár taka þátt matarmálsvarar frá þremur Evrópulöndum: Íslandi, Bretlandi og Spáni.

Matarmálsvarar hjálpa til við að byggja upp upplýstrara samfélag sem gerir sér betur grein fyrir hvaðan matur kemur og hvernig hann hefur áhrif á heilsu okkar og á jörðina.

Á árinu 2020 munu þrír evrópskir samstarfsaðilar, í Reykjavík, Belfast og Madríd, styðja nemendur til að verða matarmálsvarar og efla næstu kynslóð neytenda til aukins áhuga og þekkingar um matartengd málefni.

Skemmtimennt um nærumhverfisneyslu og sjálfbærni á Íslandi

Á Íslandi vinna kennarar með efni í skemmtimennt á grunnskólastigi í samstarfi við Matís og Háskóla Íslands í gegnum WeValueFood. Fræðsluefnið „Krakkar kokka“ er sett saman af Matís sem skref í átt að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og aukinni fæðu- og umhverfisvitund barna og er mennta- og menningarmálaráðherra verndari verkefnisins.

Hugmyndafræðin að baki þessari skemmtimennt er mjög einföld: Annarsvegar læra 11-12 ára börn um sjálfbærni, fæðuauðlindir og umhverfisáhrif, næringu og heimilisfræði, og hins vegar skemmta þau sér við staðbundna matargerð og heimsóknir til og umræður við staðbundna matvælaframleiðendur.

Með nýrri Krakkar kokka Instagramsíðu geta börn og foreldrar þeirra, sem og matvælaframleiðendur á Íslandi, fylgst með framgangi verkefnisins og lært um náttúrulegar og staðbundnar fæðuauðlindir Íslands og hvernig nýta má hráefnið í ljúffengar, næringarríkar og sjálfbærar máltíðir.

Meginþáttur verkefnisins er að nemendur búa til stutt myndskeið um öflun hráefnis úr fæðuauðlindum síns svæðis og elda síðan úr hráefnunum og geta jafnaldrar þeirra þannig einnig fræðst um auðlindir Íslands og nýtingu afurðanna og sjálf orðið alvöru matarmálsvarar. Myndskeiðin verða aðgengileg á YouTube síðu Matís, skólavefsíðum og samfélagsmiðlum eins og Instagram eða TikTok.

Að bæta matarþekkingu í Bretlandi

Í Queen's University í Belfast mun nýþróað kerfi bæta matarþekkingu innan tveggja nemendahópa: hjá nemendum sem nú þegar hafa mikla matarþekkingu og hjá nemendum sem hafa litla matarþekkingu.

Hinir verðandi matarmálsvarar er hópur nemenda sem nú þegar er með mikla þekkingu. Þeir verða þjálfaðir í að hugsa á gagnrýninn hátt um samskiptaaðferðir, til dæmis með hliðsjón af áreiðanleika upplýsinga sem tengjast mat á samfélagsmiðlum. Nemendurnir fá þjálfun og stuðning frá sérfræðingum í miðlun og staðbundnum áhrifavöldum um hvernig þeir geta aukið sýnileika á netinu, deilt áreiðanlegum upplýsingum og náð til fylgjenda á hvetjandi hátt.

Matarmálsvarar Bretlands sjá um að miðla mikilvægi matar og matargildum til jafnaldra sinna í gegnum samfélagsmiðla og önnur samskipti við jafnaldra sem mun stuðla að betri ákvarðanatöku varðandi mat. Hópur sérfræðinga innan Queen's University mun sjá til þess að upplýsingarnar sem miðlað er, séu áreiðanlegar og studdar af vísindalegum rannsóknum. Annað kerfi fyrir nemendur sem eru ótengdir mat miðar að því að hvetja til þróunar almennrar færni þegar kemur að mat, til dæmis með að skilja hvernig á að velja og geyma matvæli til að draga úr matarsóun, lesa úr merkingum matvæla og meðhöndla mat á öruggan hátt.

Tvíhliða netumræður á Spáni

Eftir að samfélagsmiðlar urðu vinsæll vettvangur fyrir opinbera umræðu ákváðu Matvælafræðideild Madríd háskólans (UAM) og rannsóknastofnunin IMDEA Food ásamt teymi vísindafólks hjá UAM, að leiða 30 tíma háskólanámskeið til að efla nemendur í matreiðslu og heilbrigðisvísindum með nýjum leiðum, svo sem með hlaðvörpum eða færslum sem hafa notið vinsælda á samfélagsmiðlum.

Hinir nýju spænsku matarmálsvarar, sem hafa fengið þjálfun á árinu hjá WeValueFood, komust að því að tvíhliða samskipti við markhópa þeirra og fylgjendur eru nauðsynleg til að þróa góð tengsl. Háskólanemendur og nýútskrifaðir nemendur eru hvattir til að taka þátt í viðburðum á netinu sem fjalla um málefni sem tengjast næringu, heilsu og matvælaframleiðslu.

Á sama tíma eiga nemendurnir samskipti í gegnum samfélagsmiðla sína (Instagram, Twitter, Facebook). Nýju miðlunum hefur gengið vel, til dæmis bætti @nutreconciencia á Twitter við sig 206 fylgjendum á 3 mánuðum, @beFEEDus á Facebook hefur fengið 267 fleiri fylgjendur á sama tíma og @madres_cientificas sem kom fyrst fram á Instagram í júlí 2020 og hefur nú þegar náð 1025 fylgjendum.

Síðan munu matarmálsvararnir kynna samfélagssíður sínar fyrir samskiptasérfræðingum og fá ráð um hvernig þeir gætu í framtíðinni haft enn meiri áhrif. Spænsku matarmálsvararnir eru sannarlega áhrifavaldar sem byggja færslur sínar á áreiðanlegum og vísindalega rökstuddum upplýsingum, og samtvinna færni í miðlun og samskiptum við sterkan bakgrunn í matvæla- og heilbrigðisvísindum.

Næstu skref

Matarmálsvarar munu halda áfram að sækja viðburði og námskeið til að efla færni sína og stækka tengslanetið, til dæmis í samstarfi við EIT Food-verkefnin FoodUnfolded og matarkonsúla (Food Ambassadors). Matarkonsúlar hittast í #EatingTheGap atburðaröð sem sameinar hagaðila og áhrifavalda frá öllum hlutum matvælakeðjunnar í Evrópu. Matarmálsvararnir munu taka þátt í sameiginlegum viðburði til að fá tækifæri til að læra meira um hvernig miðla má áreiðanlegum og vísindalega studdum upplýsingum um sjálfbær matvæli á áhugaverðan hátt.

FoodUnfolded er alþjóðlegur, stafrænn vettvangur sem er styrktur af EIT Food, býr til og deilir efni sínu um nýjungar tengdar matvælum og landbúnaði.


Fréttir