Fréttir

Eldhús framtíðarinnar komið til Matís

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Næsta tæknibylting verður í matvælageiranum og er íslenskt sjávarfang nú þegar komið í þrívíddar matvælaprentarann hjá Matís.

Nú spá flestir því að næsta tæknibylting verði í matvælageiranum. Fjárfestar sem áður settu peninga í upplýsingatæknibyltinguna í Kísildalnum í Bandaríkjunum fjárfesta núna í sprotafyrirtækjum sem eru líkleg til að umbylta matvælamarkaðnum með nýrri tækni og vörum. Þetta er tækni eins og til dæmis matvælaprentari sem prentar mat að ósk hvers og eins,“ segir Hörður G. Kristinsson, rannsókna- og nýsköpunarstjóri Matís. Hörður er doktor í matvæla- og efnafræði og með MBA gráðu í viðskiptafræði. Hann starfaði um árabil sem prófessor í matvælaefnafræði við University of Florida í Gainesville áður en hann kom heim og hóf störf hjá Matís árið 2008.

Snéru vörn í sókn

Hörður segir rannsóknaumhverfið á Íslandi mjög sveigjanlegt og skemmtilegt og mikinn frumkvöðlakraft í fólki. „Ég kom heim frá Bandaríkjunum á áhugaverðum tíma árið 2007, í blússandi uppgangi en stuttu síðar varð efnahagshrunið. Það er athyglisvert að þrátt fyrir þessa niðursveiflu hefur Matís tekist að vaxa og dafna en þar skiptir miklu gott og áhugasamt starfsfólk. Strax eftir hrun var tekin ákvörðun um að snúa vörn í sókn og síðan höfum við sótt mikið á erlenda rannsóknasjóði með góðum árangri.“ Hann segir Matís hafa sterka stöðu þegar kemur að sjávartengdum rannsóknum og fyrirtækið sé á meðal fremstu rannsóknafyrirtækja heims á þeim vettvangi. Þannig sé Matís meðal annars í hópi 50 fyrirtækja og háskóla víða í Evrópu sem taka þátt í mjög stóru verkefni undir heitinu EIT Food en EIT stendur fyrir European Institute of Innovation and Technology. Verkefnið, sem er til sjö ára verður styrkt um 400 milljónir evra og er stærsta verkefni sinnar tegundar í Evrópu. Markmið með því er að styrkja til muna matvælarannsóknir og þróun í álfunni og umbylta matvælaiðnaðnum og menntun framtíðarstarfsfólks í greininni.

Íslenskt sjávarfang fyrir matvælaprentara

Hörður áréttar að tæknibyltingar hafi tilhneigingu til að gerast hratt. Því megi búast við að áðurnefndur matvælaprentari, sem kann að þykja fjarstæðukennd hugmynd í dag, verði innan fárra ára álíka algengt tæki í eldhúsum landsmanna og örbylgjuofn. En hvað er matvælaprentari? „Matvælaprentari er þrívíddarprentari sem getur útbúið eða prentað mat samkvæmt forskrift neytandans. Hann ræður þá útliti og lögun fæðunnar og getur stjórnað efnasamsetningunni samkvæmt eigin næringarþörfum. Ef hann vill meira prótein, eða tiltekin holl efni, getur hann sérsniðið matinn að þeim þörfum og búið hann til þegar honum hentar. Innhaldsefnin eru í hylkjum í prentaranum, sem síðan formar matinn að ósk notandans.“ Matvælaprentarinn er þegar kominn á markað og Matís hefur fest kaup á slíku tæki að sögn Harðar. Í framhaldinu fari af stað prufuverkefni í að þrívíddarprentun sjávarfangs. „Við ætlum okkur að undirbúa og þróa sérstaklega hylki fyrir þessa prentun með tilbúnum blöndum úr sjávarfangi. Með þessu viljum við bæði vekja athygli á íslensku hráefni fyrir þessa prentara og gera Ísland leiðandi á þessu sviði.“ Meðal samstarfsaðila Matís í þessum rannsóknum er kokkalandslið Íslands, sem Hörður segir að hafi sýnt þessari nýjung mikinn áhuga, auk Þorbjarnar og Ísfisks, sem eru framsækin fyrirtæki í fiskvinnslu. „Við viljum finna leið til að gera sjávarfang spennandi á ný, sérstaklega fyrir ungu kynslóðina. Ungt fólk mun þá geta notað mismunandi hráefni úr hafinu til að prenta sér hollan og góðan mat.“ Hann segir matvælaprentarann aðeins eina af fjölmörgum breytingum sem verði í eldhúsi framtíðarinnar. Þannig muni ísskápurinn t.d. líka þróast og verða fær um að fylgjast með ferskleika fæðunnar sem hann geymir og láta vita þegar hún er að renna út á tíma eða skemmast.

Dreifing með drónum

Að sögn Harðar fara nú fram umfangsmiklar rannsóknir og prófanir á dreifingu matvæla með drónum. Það setur hins vegar strik í reikninginn að lög um dróna eru mjög mismunandi, frá einu landi til annars. „Þessar tilraunir eru flestar gerðar á Nýja Sjálandi, enda eru lög um dróna tiltölulega frjálsleg þar í landi. Fyrirtækið Dominos hefur gert tilraunir með að fljúga með pizzur til viðskiptavina og 7-11 keðjan er byrjað að senda pakka með drónum heim til fólks sem býr í nokkurra kílómetra fjarlægð frá vöruhúsi þeirra.“ Þá hafi Amazon nýlega lagt inn beiðni um einkaleyfi á nokkurs konar „fljúgandi vöruhúsi“, sem yrðu stórir loftbelgir í 12 til 14 þúsund metra hæð, þaðan sem á síðan að vera hægt að dreifa með drónum hvers kyns varningi til neytenda. Allt eru þetta dæmi um þá gríðarlega miklu og spennandi þróun sem nú á sér stað í matvælaiðnaðinum.

World Seafood Congress

Um þetta verður meðal annars fjallað á ráðstefnunni World Seafood Congress (WSC), sem haldin verður í Hörpu dagana 10.-13. september nk. Meðal fyrirlesara verður Lynette Kucsma, sem tók þátt í hönnun eins af fyrstu þrívíddarmatvælaprenturunum. Þá mun John Bell, frá framkvæmdastjórn ESB, fjalla um hvaða áhrif tækniumbyltingar eru að hafa í evrópskum sjávarútvegi. Hörður segir WSC eina mikilvægustu ráðstefnuna á þessu sviði í heiminum og ögrandi verkefni fyrir Matís að taka hana að sér. Allt utanumhald um slíka ráðstefnu krefst mikils samstarfs og með Matís í þessu verkefni er hópur sterkra aðila en það eru: Arion banki, HB Grandi, Brim, Íslandsstofa, Norræna ráðherraráðið og Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna.