Fréttir

Fiskolíur sem hluti af viðarvörn

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Niðurstöður verkefnis sem unnið var að í Matís leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn.

Árlega fellur til verulegt magn af lýsi sem aukahráefni. Við framleiðslu á fiskimjöli verður hluti framleiðslunnar að aukahráefni vegna hás sýrustigs af völdum frírra fitusýra eða ofhitunar. Við fullvinnslu á þorskalýsi falla til hundruð tonna af ónothæfu lýsi vegna framleiðslu á ómega 3 þykkni. Að auki falla til hundruð tonna af steríni vegna kaldhreinsunar á lýsi. Þessu lýsi hefur verið brennt sem eldsneyti og einnig notað til blöndunar við tjöru í malbiksgerð.

Árið 1941 byggði Tryggvi Ólafsson stofnandi Lýsis hf. sumarbústað með trépanel sem ytra byrði við Þingvelli. Notaði hann blöndu sem að meginhluta innihélt lýsi til að verja bústaðinn. Núna 75 árum síðar er ytra byrði hússins enn sem nýtt.

Markmið verkefnisins var að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af hráefni í viðarvörn. Þróaðir voru vinnsluferlar til að vinna óhreint hrálýsi og uppsjávarfisk í verðmæta viðarolíu.

Niðurstöður leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn. Sterín var ekki hægt að nota þar sem það fellur út við herbergishita og blandast ekki öðrum hráefnum.

Tréborð með viðarvörn.