Fréttir

Fundur um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi í sjókvíum á Vestfjörðum og Austfjörðum var til umræðu á fjölmennum fundi sem Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóð fyrir í síðustu viku. Á fundinum var m.a. sagt frá rannsóknum sem stundaðar hafa verið hjá Matís á stofnerfðafræði laxfiska.

Á fjölsóttum fundi um Áhættumat Hafrannsóknastofnunar vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi sem haldinn var af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 27. september s.l. kynnti Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar m.a. niðurstöður nýrrar ritrýndar greinar um erfðafræði laxins í Evrópu: A microsatellite baseline for genetic stock identification of European Atlantic salmon (Salmo salar L.). Sigurður er þar meðhöfundur ásamt Kristni Ólafssyni sem starfaði hjá Matís og var í doktorsnámi í stofnerfðafræði laxa. Höfundar greinarinnar tileinkuðu greinina minningu Kristins en hann lést 22 mars síðastliðinn. Framlag Kristins var mikilvægt fyrir tæknilega þróun rannsóknarinnar og greiningu íslenskra laxastofna.

Niðurstöður greinarinnar, sem er aðgengileg hér, sýna fram á að hægt sé að rekja uppruna lax sem að veiðist í sjó með arfgerðagreiningu og sjá úr hvaða á hann er kominn. Ættfræði evrópskra laxfiska er teiknuð upp í hinni nýju grein. Íslenskar stofnerfðarannsóknir hafa leitt í ljós erfðabreytileika milli íslenskra laxastofna og sýnt að hver á hefur sinn sérstaka stofn en þær niðurstöður birti Kristinn í ritrýndri grein árið 2014, myndin hér að neðan er úr þeirri grein.

Olafsson, K., Pampoulie, C., Hjorleifsdottir, S., Gudjonsson, S., and Hreggvidsson, G. O. 2014. Present-day genetic structure of Atlantic Salmon (Salmo salar) in Icelandic Rivers and ice-cap retreat models. PLoS ONE, 9: e86809.

Á fundinum, sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra stýrði, fjallaði Dr. Geir Lasse Taranger, frá norsku Hafrannsóknastofnuninni (Havforskningsinstituttet) um áhættumat í norsku fiskeldi og nýtt s.k. „umferðaljósakerfi“. Bára Gunnlaugsdóttir frá Stofnfiski ræddi um notkun stærri gönguseiða og síðbúinn kynþroska. Kom fram í máli Báru að rannsókna niðurstöður sýni að minni líkur séu á að hængar sem sleppa hafi áhrif á villta stofna  en hrygnur sem sleppa.

Matís vinnur nú að rannsóknaverkefni með Hafrannsóknastofnun um erfðafræðileg áhrif laxeldis á villta laxastofna með styrk frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis, sem Guðbjörg Ólafsdóttir sérfræðingur hjá Matís hefur tekið við stjórn á. Verkefnið fellur undir faglega áherslu Matís á örugga og sjálfbæra virðiskeðju matvæla.

I-minningu-KO