Fyrstu réttirnir úr íslensku hráefni komnir úr matvælaprentaranum

5.9.2017

Fyrstu réttirnir sem prentaðir eru úr íslensku hráefni komu úr Foodini matvælaprentara í höfuðstöðvum Natural Machines í Barcelona á Spáni í síðasta mánuði. Það var dr. Holly T. Petty ráðgjafi hjá Matís sem var þar að vinna með framleiðanda prentarans og notaði við tilraunina saltaðan íslenskan þorsk, þorsksurimi og þorskprótein.

Með prentaranum mótaði hún m.a. saltfisk eldfjallið sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Holly fer fyrir rannsóknahópi á vegum Matís sem vinnur að verkefninu „Fiskur framtíðarinnar“ og er styrkt af Tæknirannsóknasjóði Rannís.

Hópurinn mun næstu misserin vinna að því að þróa aðferðir til að nýta íslenskt sjávar- fang sem efnivið fyrir matvælaprentara en spáð er að hann verði jafn algengt verkfæri í eldhúsum landsmanna í framtíðinni og örbylgjuofninn er í dag.

Nýsköpunarævintýri framundan

Hún segir það hafa verið gríðarlega spenn- andi að sjá þrívíða matvælaprentarann að störfum í fyrsta skipti í Barcelona. „Það var sérstakt að fylgjast með uppskriftunum raungerast með nákvæmum hætti í þrívíðu prentformi, lag eftir lag en það eru fjöl- margir breytur sem þarf að taka tillit til eins og innihaldsefna, hráefna, vinnslu og áferðar. Að lokum líður manni eins og ákveðnum árangri hafi verið náð og að hér sé á ferðinni visst tækifæri.“ Holly segist þakklát og stolt af því að vera matvæla- fræðingur og í fararbroddi nýsköpunar þar sem sjálfbært íslenskt hráefni er nýtt til þrívíddarprentunar matvæla. „Þetta er aðeins byrjunin á því að efla íslenskt sjávarfang innanlands og á heimsvísu með þrívíðri matvælaprentun. Ég hlakka til að taka þátt í því nýsköpunarævintýri sem framundan er og að halda áfram að vinna með tækið sem kallað hefur verið örbylgju- ofn framtíðarinnar.“

Hún segir matvælaprentarann opna ýmsa nýja möguleika í matargerðinni og gera neytendum kleyft að taka holl matvæli eins og til dæmis fisk og blanda honum saman við aðrar hollustuvörur eins og grænmeti og búa til úr því spennandi matvöru sem þeir hefðu ekki annars aðgang að. „Í stað þess bara að sjóða þorskinn er til dæmis hægt að móta hráefnið í prentaranum þannig að það líkist eldfjalli og setja sósu í gíginn, sem er kannski eitthvað sem höfðar meira til neytenda nútímans en bara fiskstykkið á disknum. Í raun er þetta sama hráefnið en framreiðslan er önnur,“ segir Holly.

Matvælaprentarinn verður sýndur á World Seafood Congress 2017 sem stendur yfir í
Hörpu dagana 11.-13. september næstkomandi.


Fréttir