Fréttir

Gleðileg sumarbyrjun hjá ráðherra

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar byrjaði sumarið vel og nýtti fyrsta virka dag sumars til að heimsækja Matís.

Föstudaginn 20. apríl kom Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í heimsókn til Matís. Ráðherra fékk, ásamt Jóhanni Guðmundssyni skrifstofustjóra sjávarútvegs og fiskeldis, kynningu á starfsemi fyrirtækisins og stefnu þess með dæmum um áhrif af þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í matvælarannsóknir á Íslandi á undanförnum árum. Sérstaklega var vikið að þróun í tengslum við sjávarútveg. Þá var þróun undanfarinna ára í sjávarútvegi sett í samhengi við tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í landbúnaði, á grunni matvælaöryggis, sem hefur bein áhrif á byggð í landinu. 

Í stuttri skoðun ráðherra á aðstöðu Matís hitti hann fyrir önnum kafna starfsmenn Matís,  nemendur sem eru þátttakendur í Ecotrophelia nýsköpunarkeppninni um vistvæn matvæli. Á Brúnni milli atvinnulífsins og vísindasamfélagsins heimsótti ráðherra starfsmenn Margildis og Lava Seafood sem leigja aðstöðu af Matís. Á meðan ráðherra gekk um húsakynni Matís fór fram próf í matvæla- og næringarefnafræði við Háskóla Íslands á Brúnni í húsakynnum Matís. Þá skoðaði ráðherra efnamælingaaðstöðu Matís og fékk kynningu á hlutverki og hæfni starfsfólks og mælitækja. Loks skoðaði ráðherra rannsóknainnviði Matís á sviði erfðafræði.

Í heimsókninni sankaði Kristján Þór að sér fróðleik um nýsköpun í sjávarútvegi sem kemur vonandi að góðum notum á næstu dögum, til dæmis á sjávarútvegssýningunni í Brussel, sem stendur yfir frá 24. til 26. apríl, sem og til lengri tíma, enda mörg tækifæri til að stuðla að þróun nýrra afurða og aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu með nýsköpun til frambúðar.

Mynd með frétt

Frá vinstri: Anna Kristín Daníelsdóttir sviðsstjóri, Sveinn Margeirsson forstjóri, Kristján Þór Júlíusson ráðherra, Jóhann Guðmundsson skrifstofustjóri, Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri, Hrönn Ólína Jörundsdóttir sviðsstjóri.