Greining fiskveiðistjórnunarkerfa: notkun líkana og hermun

26.4.2016

Mánudaginn 2. maí ver Sigríður Sigurðardóttir starfsmaður Matís doktorsritgerð sína í iðnaðarverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Villy Christensen, prófessor og forstöðumaður Sjávar- og fiskirannsóknarstofnunar Háskólans í Bresku Kólumbíu, Kanada, og dr. Ronald Pelot, prófessor við Dalhousie-háskóla í Halifax, Kanada.

Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís, dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, dr. Páll Jensson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, og dr. Birgir Hrafnkelsson, dósent í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
 
Dr. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

Hvenær hefst þessi viðburður: 2. maí 2016 - 14:00Staðsetning viðburðar: AskjaNánari staðsetning: Stofa 132

Ágrip af rannsókn

Fiskveiðistjórnun er vandasamt verkefni sem tekst á við fjölda áskorana, þ.m.t. of stóran fiskveiðiflota, brottkast afla og óarðbærar veiðar. Líta má á fiskveiðar sem kerfi sem einkennast af samspili manna við náttúruauðlindir. Tölvuvædd hermilíkön eru gagnleg til þess að auka skilning á fiskveiðistjórnun sem og styðja við ákvarðanir tengdar stjórnun veiða. Líkön gagnast til þess að meta áhrif breytinga á stjórnun veiða á ólíka þætti, svo sem fiskistofna, atvinnu og afkomu. Breytingarnar eru til dæmis sóknartakmarkanir, breyting á úthlutun kvóta eða krafa um að allur afli komi að landi.

Markmið rannsóknarinnar var að stuðla að bættri fiskveiðistjórnun. Tilgangurinn var að þróa líkön og herma fiskveiðistjórnunarkerfi með það að markmiði að bera saman ólíkar nálganir í stjórnun veiða. Það er gert með því að líta á áhrif þeirra á valdar breytur sem eru ýmist hagrænar, líffræðilegar eða félagslegar. Meginframlag rannsóknarinnar felst í að kynna aðferðir sem hingað til hafa lítið eða ekki verið nýttar á þessum vettvangi. Rannsóknin er þverfagleg og sameinar líkangerð og hermun sem á rætur að rekja til verkfræði og sjávarútvegsfræði sem byggir á vistfræði, hagfræði og félagsfræði. Þrjú líkön voru þróuð, blendings (e. hybrid) hermilíkan sem samanstendur af kviku kerfislíkani (e. system dynamics model) og strjálu-atburða hermilíkani (e. discrete-event simulation model) og nýrri tegund líkana sem er í ætt við einingalíkön (e. agent-based models). Einn angi rannsóknarinnar fjallaði um brottkast en þar voru tólf aðferðir til að draga úr brottkasti metnar kerfisbundið með svokallaðri SVÓT greiningu sem felur í sér að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri.

Um doktorsefnið

Sigríður Sigurðardóttir fæddist 1. desember 1983. Hún lauk B.Sc. prófi árið 2007 í iðnaðarverkfræði og  meistaragráðu í sama fagi árið 2011. Meistararitgerð Sigríðar fjallaði um líkön og leiðir til hagræðingar í mjólkurvinnslu hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga. Samhliða doktorsnáminu, sem hófst árið 2011, hefur Sigríður starfað hjá Matís við fjölbreytt verkefni, einkum í sjávarútvegi. Sigríður varði hluta námstímans erlendis; við Kaliforníuháskóla í Berkeley og Chalmers tækniháskólann í Gautaborg og naut leiðsagnar þarlendra prófessora.

Eiginmaður Sigríðar er dr. Egill Maron Þorbergsson og eiga þau dótturina Önnu Ísafold.


Fréttir