Fréttir

Hacking Hekla – Skapandi lausnamót á Suðurlandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hacking hekla í samstarfi við SASS og Nordic Food in Tourism býður skapandi heimamönnum á Suðurlandi og öðrum Íslendingum að verja helgi í að vinna með hugmyndir og verkefni sem “uppfæra” svæðið. Sigurteymi Hacking Hekla 2020 vinnur 150.000 krónur.

Hakkaþon eða lausnamót, er nýsköpunarkeppni þar sem fólk kemur saman og skapar lausnir yfir stuttan tíma – venjulega um 24-48 klukkustundir. Lausnamót eru frábær vettvangur fyrir hvern sem er til að deila reynslu og þekkingu og vinna gagngert að viðskiptahugmynd eða verkefni. Hacking Hekla er fyrsta lausnamótið fyrir landsbyggðina sem ferðast hringinn í kringum landið og byggir ofan á hugmyndir sem verða til á leiðinni.

Markmið Hacking Hekla er að draga fram í sviðsljósið það öfluga frumkvöðlastarf sem á sér stað um allt land og virkja um leið skapandi hugsun og nýsköpun. Það er leiðarljós Hacking Hekla að skapa sterkt tengslanet á milli frumkvöðla og stuðningsaðila á landsbyggðinni, sem og að tengja saman frumkvöðlasenurnar í dreifbýli og þéttbýli á Íslandi.

Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun

Fyrsta Hacking Hekla fer fram á Suðurlandi dagana 16.-18. október í góðu samstarfi við Samtök Sunnlenskra Sveitafélaga og Nordic Food in Tourism. Nordic Food in Tourism er norrænt samstarfsverkefni, leitt af Matarauð Íslands og unnið í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og Matís, en því er ætlað að vekja athygli á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Að sama skapi er fókus á að aukin áhersla verði lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt. Þema Hacking Hekla 2020 er „Í átt að sjálfbærri framtíð með matartengdri nýsköpun” og verða þátttakendur hvattir til að hugsa þemað út frá mismunandi vinklum; samgöngur, ferðaþjónusta, náttúruvernd, svæðisbundin hráefni, framleiðsla og neysla matvara. Útkoman úr lausnamótinu getur verið stafræn lausn, vara, þjónusta, verkefni, hugbúnaður, vélbúnaður eða markaðsherferð.

Þar sem ástandið í þjóðfélaginu vegna Covid býður ekki upp á samkomur þá mun viðburðurinn fara fram á netinu. Til að missa ekki stemmninguna á Suðurlandi voru um tíu frumkvöðlar á svæðinu heimsóttir af tökuliði og verða myndböndin sýnd í gegnum lausnamótið. Önnur erindi og fyrirlestrar munu einnig vera aðgengilegir fyrir alla og streymdir á facebooksíðu Hacking Hekla svo það er tilvalið að fylgjast með þar þó svo að ekki sé tekið þátt í lausnamótinu sjálfu.

Hacking Hekla lausnamótið spratt upp úr doktorsverkefni Magdalenu Falter en hún er að rannsaka frumkvöðlastarf og nýsköpun á landsbyggðinni. Hún fékk til liðs við sig reyndan verkefnastjóra, Svövu Björk Ólafsdóttur, sem hefur yfir sex ára reynslu úr stuðningsumhverfi frumkvöðla og hefur meðal annars stýrt fjölda lausnamóta. Þær hafa einnig unnið náið með Arnari Sigurðssyni sem einnig er reynslubolti í nýsköpun en hann er að þróa Hugmyndaþorp, sem er stafrænn vettvangur sem er eins konar samsköpunarlausn. Hacking Hekla 2020 mun fara fram að stórum hluta á þeim vettvangi. Það má segja að Hacking Hekla teymið ásamt Arnari séu sjálf í nýsköpun þar sem þróun vettvangsins fer fram samhliða þessu fyrsta lausnamóti Hacking Hekla.

Lausnamótið er fyrir alla sem vilja hugsa í lausnum og leysa vandamál og áskoranir sem finnast á Suðurlandi. Þátttakendur þurfa ekki að búa yfir reynslu eða hafa tekið þátt áður í lausnamóti eða öðru frumkvöðlastarfi. Allir eru velkomnir og þetta er frábær leið til að efla skapandi hugsun og þjálfast í ferlinu að koma góðum hugmyndum í framkvæmd. Allar upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu SASS en þar fer einnig fram skráning. Verkefnið er styrkt af Íslandsbanka og Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu.