Fréttir

Hagnýting korns til matvælaframleiðslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Eitt viðfangsefna sem Matís hefur umsjón með og byggir á gamalli arfleifð, er samstarf um hagnýtingu korns til matvælaframleiðslu. Landbúnaður í löndum við Norður-Atlandshaf býr við svalt loftslag og stuttan vaxtartíma plantna.

Þrátt fyrir það hafa bændur á Íslandi stundað kornrækt undanfarna áratugi og náð góðum tökum á ræktuninni. Ísland er á norðurmökum kornræktarbeltisins og öðru hverju koma slök kornræktarár. Landbúnaðarháskóli Íslands og forveri hans, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rala, hafa gert kornrækt á Íslandi mögulega með kornkynbótum og miðlun þekkingar til bænda. Kynbætur á korni hófust upp úr 1960 og vinnan hefur verið samfelld í meira en 50 ár. Kynbæturnar hafa borið árangur og yrki sem hæfa aðstæðum á Íslandi hafa litið dagsins ljós. Fæðudeild var starfrækt innan Rala frá 1977 og með samstarfi matvælafræðinga og jarðræktarfólks kviknaði áhugi á aukinni nýtingu innlenda kornsins til matvælaframleiðslu. Nokkra starfsemi innan Matís má enn rekja til fæðudeildar Rala og stöðugt verið að þróa þá þekkingu sem þar byggðist upp.

Árið 2005 var hafist handa við verkefni sem miðuðu að því að nýta innlent korn til matvalaframleiðslu og voru þau styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þessi vinna þróaðist síðan í samstarf landa við Norður-Atlantshaf sem styrkt var af Norræna Atlantssamstarfinu og Norðurslóðaáætluninni.

Innlent korn er fyrst og fremst bygg en það hentar ágætlega í margskonar matvæli. Í brauð er það notað ásamt hveiti og leggur byggið til gott bragð og hollustuefni eins og beta-glúkana sem lækka blóðkólesteról og draga úr blóðsykursveiflum. Af öðrum matvörum með byggi má nefna kex, morgunkorn, grauta og tilbúna rétti. Loks má nefna að bygg er notað til að framleiða malt sem er eitt mikilvægasta hráefnið í bjórgerð.

Hlýnun jarðar breytir ræktunarskilyrðum og ræktun korns getur á sumum suðlægum svæðum orðið erfiðari en áður. Það skapar aukinn þrýsting á fóður- og matvælaframleiðslu á norðlægum slóðum. Nýting innlends korns eykur fæðuöryggi og eykur sjálfbærni í matvæla- og fóðurframleiðslu á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, matvælafræðingur hjá Matís.