• Logo_HI

Háskóli Íslands upp um nær 50 sæti á lista yfir bestu háskóla heims – Matís er stoltur samstarfsaðili

15.4.2016

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að Háskóli Íslands (HÍ) fékk enn eina rós í hnappagatið fyrr í þessari viku þegar Times Higher Education World University Rankings 2015-2015 birti lista yfir bestu háskóla heims. Skólinn færist upp um hartnær 50 sæti á þessum lista, úr 270. sæti í það 222.

Góð tenging hefur lengi verið á milli HÍ og Matís. Fjölmargir starfsmenn Matís koma að kennslu hjá HÍ þá sérstaklega í matvæla- og næringarfræði sem og kennslu í líftæknitengdum greinum. Starfsfólk Matís er ákaflega stolt af því að Matís skuli vera nefnt sem samstarfsaðili þessa öfluga háskóla og lítur björtum augum til áframhaldandi samstarfs á næstu árum og áratugum.

Matís óskar Háskóla Íslands til hamingju með þessa miklu viðurkenningu!

Um samstarf HÍ og Matís

Matís hefur átt í miklu og góðu samstarfi við Háskóla Íslands um nám í matvælafræði en það er samvinnuverkefni Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Í náminu er lögð rík áhersla á að nemendur vinni hagnýt verkefni og séu í tengslum við atvinnulífið.

Samstarfið við Háskóla Íslands er ekki bundið við matvæla- og næringarfræðideild þar sem einnig er mikið samstarf við verkfræði- og náttúruvísindasvið og einnig félagsvísindasvið.

Sumarið 2013 gerðu Matís og HÍ með sér samning um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Samningurinn leggur grunninn að frekri eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Margt er gert til að tryggja enn betur samstarf og góða samvinnu á milli aðila í þessum mikilvægu greinum. Til að mynda var árið 2012 blásið til sóknar í matvælafræðinámi á Íslandi. Með samstarfi Matís og Háskóla Íslands, í samvinnu við aðra ríkisrekna háskóla, var nýtt alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði sett á laggirnar en námið hefur heldur betur slegið í gegn og fjölgar nemendum ár frá ári. Nánari upplýsingar um námið má finna hér: www.framtidarnam.is.

Auk þess var stofnað nýtt svið hjá Matís með það fyrir augum að tengja enn betur saman iðnaðinn og háskólasamfélagið.

„Með stofnun sviðs um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson um hið nýja svið menntunar og matvælaframleiðslu sem tók til starfa innan Matís þann 1. júní 2012.


Fréttir