Fréttir

Humarpaté framlag Íslands í Evrópukeppni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Sextán Evrópulönd keppa um titilinn nýstárlegasta matvara Evrópu 2015 dagana 5. og 6. október á alþjóðlegu matvælasýningunni í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.

Hvernig verða matvæli framtíðarinnar? Hverjir verða helstu straumar og stefnur í neyslu matvæla í Evrópu?

Í október verður þessum spurningum svarað með nýsköpun 85 háskólanemenda í Ecotrophelia Europe keppninni í Mílanó. Keppendur frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi munu kynna aðlaðandi, bragðgóðar og nýstárlegar vörur fyrir dómnefnd sem skipuð er fulltrúum sömu landa. Formaður dómnefndar er Michel COOMANS, fyrrum forseti matvælasviðs iðnaðarráðuneytis Evrópusambandsins. Heildarverðmæti verðlauna er 15.000 evrur. 

Fyrir Íslands hönd keppir varan Humarpaté eða Paté de Langoustine þróað af 7 nemendum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands með stuðningi frá Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtökum iðnaðarins. 

Nám í nýsköpun matvæla eykur samkeppnishæfni fyrirtækja

Frá árinu 2011 hefur framtakið ECOTROPHELIA staðið fyrir 75 keppnum og virkjað 550 háskóla og yfir 3000 nemendur til þátttöku. Fjörutíu vörutegundir, hannaðar innan ramma Evrópukeppninnar, hafa verið þróaðar og settar á markað.  ECOTROPHELIA Europe er námsmódel fyrir háskóla og nemendur, viðurkennt af iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins. Keppnin tengir saman hæfileika, færni og nýsköpun. Hún er einnig vettvangur fyrir fólk í kennslu, rannsóknum, framleiðslu og viðskiptum til að eiga árangursrík samskipti.

ECOTROPHELIA Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin NESTLÉ World og Campden BRI í Bretlandi.

VERÐLAUN Í ECOTROPHELIA EUROPE KEPPNINNI verða afhent þriðjudaginn 6. október á sýningarsvæði alþjóðlegu matvælasýningarinnar í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.


Frétt þessi birtist fyrst á vef Samtaka Iðnaðarins, www.si.is, þar sem fá má nánari upplýsingar.