Fréttir

Húsfyllir að Hvanneyri – fyrsta skrefið í að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mjög góð mæting var á fund á Hvanneyri um aukið virði landbúnaðarafurða sem Samtök ungra bænda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís buðu til í gærkvöldi. Þar stigu á stokk forsvarsmenn fundarboðenda og fulltrúar frá öllum helstu framboðum til alþingiskosninganna um næstu helgi. Á næstu dögum munum við fjalla um fundinn og draga fram það helsta sem þar fór fram.

Margt áhugavert kom fram í erindi frambjóðenda og sitt sýndist hverjum um hvernig hægt er að auka virði landbúnaðarafurða en öll framboðin voru þó sammála um að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar til að aukin verðmætasköpun geti átt sér stað í landbúnaði. Slíkt er athyglivert í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára er lagt til af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fjármagn til Matís verði skorið niður um 12% eða um 51 milljón. Slíkt er algerlega á skjön við stefnu allra flokka um eflingu nýsköpunar á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason frá Framsóknarflokki sagðist hafa fylgst með uppbyggingu Matarsmiðja Matís allt í kringum landið í gegnum tíðina. Hann sagði að á meðan niðurskurðaráform liggi fyrir þá væri Matís væntanlega að takast á við þau áform og undirbúa sig. Á sama tíma gæti félagið ekki sótt fram með eðlilegum hætti og unnið áfram að þeim flottu verkefnum sem í gangi væru allt í kringum landið. Niðurskurðurinn væri því í mikilli mótsögn við efni fundarins, aukið virði landbúnaðarafurða.