• Picture1_1561025988879

Hvernig bragðast matur í geimnum?

20.6.2019

Nemendur í Háskóla unga fólksins heimsóttu Matís þann 13. júní á þemadögum. Yfirskrift dagsins var „Matur í geimnum“ og um kennslu sáu Sævar Helgi Bragason, þáttagerðarmaður og margverðlaunaður vísindamiðlari, Anna Sigríður Ólafsdóttir, prófessor í næringarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur á sviði rannsókna og nýsköpunar hjá Matís. Alls tóku þátt 24 nemendur á aldrinum 12-15 ára. 

Námskeiðið var samsett af fræðslu um sögu geimferða, matar og hringrás matar í geimnum, skynfærin okkar og hvernig skynjun breytist í geimnum, næringu mannsins í geimnum og matarmenningu. Inn í fræðsluna voru tvinnaðar verklegar æfingar með skynjun og mat: lykt, bragð, útlit, hljóð og áferð, sem og samspil skynfæranna og hvernig skynjun í geimnum er ólík því sem við upplifum á jörðu niðri. Jafnframt fengu nemendur að kynnast rannsóknum á örplasti, örveru- og erfðarannsóknum sem gerðar eru á Matís, allt samtvinnað lífi í geimnum.

Aðkoma Matís að verkefninu var í gegnum verkefnið WeValueFood sem Matís tekur þátt í ásamt 13 öðrum háskólum og stofnunum í Evrópu næstu misserin. WeValueFood hefur það að markmiði að styðja við fæðuhagkerfi Evrópu með því að fræða og efla næstu kynslóð neytenda í þekkingu, áhuga og þátttöku í matartengdum málefnum. Hluti af því er að kynna og fræða ungt fólk um mat og vekja athygli þeirra á málinu með nýjum nálgunum og frá öðrum sjónarhornum. Matur í geimnum er mjög áhugaverð nálgun á matartengd málefni og nemendur voru mjög áhugasamir um tengingu matar, næringar og geims.

Foodwevalue

Nemendur fengu að smakka frostþurrkaðan fisk, epli og banana.

WeValueFood er hluti og styrkt af EIT Food, stóru Evrópsku þekkingar- og nýsköpunarsamfélagi um matvæli sem ætlar að umbreyta umhverfi matvælaframleiðslu, vinnslu og neyslu með því að tengja neytendur við fyrirtæki, frumkvöðla, vísindafólk og nemendur alls staðar í Evrópu. EIT Food styður nýjar, sjálfbærar og hagkvæmar lausnir til að bæta heilsu neytenda og til að tryggja aðgang að öruggum hágæða mat sem hefur sem minnst áhrif á umhverfið. 


Fréttir


Tengiliður