Fréttir

Hvers virði eru skynmats- og neytendafræði?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Skynmat, t.d. mat á gæðum, og neytendamál eru mikilvægur hlekkur í þeirri vinnu sem fer fram i fyrirtækjum sem framleiða og selja neytendavöru. Nordic Sensory Workshop er norræn ráðstefna sem haldin er um það bil annað hvert ár. 

Að ráðstefnunni standa sérfræðingar á sviði skynmats- og neytendarannsókna á Norðurlöndum og skiptast jafnframt á að halda ráðstefnuna. Hún verður núna haldin í Gautaborg dagana 13. og 14. maí 2020, og er það RISE (The Swedish Research Institute) sem sér um utanumhald með aðstoð frá norrænum samstarfsaðilum á Íslandi (Matís), Noregi (NOFIMA), Danmörku (Teknologisk Institut) og Finnlandi (VTT-Technical Research Centre of Finland).

Yfirskrift Nordic Sensory Workshop 2020 sem haldin verður í Gautaborg 2020, er „What is the Added Value of Sensory and Consumer Science“. Þar verður m.a. fjallað um miðlun upplýsinga sem fást úr skynmati og neytendarannsóknum. Áherslan verður á vísindalegar niðurstöður og notagildi og miðlun þeirra til iðnaðar sem og samfélagsins. Skoðuð verða dæmi um hvernig skynmat og neytendarannsóknir hafa skipt máli í rannsóknum, í vöruþróun, í sjálfbæru samfélagi, menntun o.fl.. Fagfólk og vísindafólk sem vinnur við skynmat, gæðamál og neytendamál á sviði matvæla og annarrar neytendavöru, fá þarna tækifæri til að hittast og bera saman bækur sínar. Ráðstefnan er einnig kjörin til að efla tengsl og tækifæri á norrænum slóðum.

Tveir fyrirlesarar verða frá Íslandi, en Kolbrún Sveinsdóttir, Matís, mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni um matarvitund ungs fólks og Snorri Hreggviðsson, Margildi, mun fjalla um virði skynmats í vöruþróun.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á skráningarsíðu viðburðarins sem nálgast má hér. Frekari upplýsingar veitir Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís (kolbrun@matis.is).