Lífssaga 186 Atlantshafslaxa

25.11.2015

Uppruni og lífssaga 186 Atlantshafslaxa veiddum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar var rannsökuð með því að nota DNA stuttraðir til að meta uppruna og hreistur og kvarnir til að finna út hversu langan tíma laxarnir hafa dvalið í ferskvatni og sjó. Rannsókn þessi var gerð hjá Matís í samvinnu við Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu.

Flest sýnanna voru úr laxi sem var á sínu fyrsta ári í sjó eða 72,8%. Líftími í ferskvatni var breytilegur, frá einu ári til fimm og meðalferskvatnsaldur laxanna var 2,6 ár. Flestir höfðu laxarnir verið tvö ár í ferskvatni eða 42% og 28% höfðu verið þrjú ár í ferskvatni.

Við rannsókn á uppruna var notast við gagnagrunn um erfðir laxastofna í 284 evrópskum ám. Í ljós kom að 68% sýnanna voru rakin til meginlands Evrópu og Bretlandseyja, 30% voru rakin til Skandínavíu og norður-Rússlands en einungis 2% laxana voru frá Íslandi.

Þessi rannsókn sýnir fram á að hafsvæðið suður og austur af Íslandi er mikilvæg fæðuslóð fyrir Atlandshafslaxinn, og þá sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.  Lágt hlutfall laxa af íslenskum uppruna kom á óvart og gefur til kynna að íslenskur lax noti annað beitarsvæði.

Nánar er sagt frá rannsókninni á vef ICES ritsins.

Ítarlegi upplýsingar veitir fyrsti höfundur greinarinnar, Kristinn Ólafsson hjá Matís.


Fréttir