"Ljót" matvæli fá nýtt líf – sigurvegarar Ecotrophelia

7.4.2017

Á miðvikudaginn fór fram keppnin Ecotrophelia og voru verðlaun veitt í gær fimmtudag á ráðstefnunni „Þekking og færni í matvælageiranum“ haldin af samstarfsvettvanginum Matvælalandið Ísland.

Vinningshugmyndin kom frá þeim Hildi Ingu Sveinsdóttur, Margréti Örnu Vilhjálmsdóttur, Mariu Katrinu Naumovskaya og Málfríði Bjarnadóttur. Hugmyndin var varan „Mauk“ sem framleidd er úr vannýttu hráefni. Markmiðið með framleiðslu vörunnar var að taka á einu stærsta vandamáli í matvælaiðnaði, matarsóun. Mauk er hugsað sem marinering fyrir kjúkling og hvítan fisk en nýtist einnig sem grunnur í súpur, sósur eða pottrétti. Aðal uppistaða vörunnar eru tómatar og gulrætur en hvoru tveggja er ræktað á Íslandi í stórum stíl og er gífurlegt magn sem fer til spillis. Ástæðan er meðal annars miklar útlitskröfur frá smásölum og neytandanum sjálfum.

Sigurvegararnir stefna að enn frekari þróun vörunnar fyrir Evrópukeppni Ecotrophelia sem haldin verður í London í lok nóvember.

Nánari upplýsingar veita Málfríður og Hildur Inga hjá Matís.

 

  Vinningshafar Ecotrophelia Ísland 2017: Hildur Ingu Sveinsdóttir, Málfríður Bjarnadóttir og Maria Katrin Naumovskaya.
Á myndina vantar Margréti Örnu Vilhjálmsdóttur. Mynd: Matís/Sigurður Heimir Guðjónsson.

 

 


Fréttir