• Bone-marrow

Matarsmiðjan

Bone & Marrow

5.11.2020

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eru Jón Örvar G. Jónsson og Björk Harðardóttir hjá fyrirtækinu Bone & Marrow ehf.

Þau Jón Örvar G. Jónsson og Björk Harðardóttir standa að baki verkefninu. Þau höfðu bæði verið að vinna að málefnum tengdum landbúnaði, mat og umhverfismálum árum saman en ákváðu að sameina áhugamál sín undir einn hatt með stofnun Bone & Marrow ehf. Verkefnið hafði verið í mótun í nokkur ár og hafði Björk mikla reynslu af matvælaframleiðslu, eldamennsku og upplifunarveisluþjónustu en Jón Örvar hafði áhuga á matvælum, landbúnaði og landnýtingu. Þau vildu stofna matvælafyrirtæki sem hefði það að markmiði að næra og styrkja manninn, bæði andlega og líkamlega, á sem bestan máta og minnka um leið matarsóun.

Vörur fyrirtækisins eru annars vegar beinaseyði og hins vegar skírt smjör. Kjörorð Bone & Marrow eru forn næring handa nútímamanninum og vísar þetta í þá hugsun að margt í umhverfi forfeðra og -mæðra okkar, þar á meðal næring, eigi fyllilega erindi við nútímamanninn. Þau leitast því við að bera matvæli, sem eru í senn einföld, hrein og laus við öll auka- og uppfyllingarefni, á borð landsmanna. Beinaseyðið er framleitt úr íslenskum hágæða dýrabeinum, grænmeti, kryddjurtum og vatni. Það er sérstaklega heilnæmi beinaseyðisins sem gerir það eftirsóknarvert og talið er að neysla á því sé styrkjandi fyrir húð, meltingu og liði. Innihald skírða smjörsins er aðeins íslenskt, ósaltað smjör. Við framleiðsluna er vatn, mjólkursykur og mjólkurprótein að mestu leyti fjarlægt úr smjörinu og eftir stendur nánast hrein mjólkurfita.

Í dag eru tvær gerðir beineseyðis til sölu í hinum ýmsu verslunum en það eru Lamba- og nautabeinaseyði. Tilvalið er að drekka seyðið heitt í staðinn fyrir kaffi eða te en einnig má nýta það sem prótein drykk eftir æfingu eða út í hina ýmsu rétti eins og súpur, sósur og pottrétti. Skírða smjörið má bæði fá hreint eða með túrmerik. Það hefur sætan karamellukeim og hentar vel sem viðbit og í alla matargerð. Það hefur hátt brennslumark (250°C) og því er afar sniðugt að steikja eða baka úr því.

Nánari upplýsingar um Bone & Marrow má meðal annars finna á vefsíðu þeirra: https://www.boneandmarrow.com/


Fréttir