Fréttir

Matís í samstarf við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Guðjón Þorkelsson

Stefnumótandi sérfræðingur

gudjon.thorkelsson@matis.is

Matís og hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands (LHÍ) skrifuðu í sl. viku undir viljayfirlýsingu sem útlistar áhuga til aukins samstarfs, með aukna verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á afurðum íslensks lífhagkerfis að markmiði.

Matís og hönnunar- og arkitektúrdeild LHÍ telja að rannsóknir og samstarf geti lagt grunn að breyttum hugsunarhætti varðandi nýsköpun og tækniumbyltingar í matvælaframleiðslu, hönnun og vöruþróun á Íslandi, aukið framleiðslu heilnæmra og næringarríkra matvæla sem höfða til neytenda á sama tíma og framleiðsla þeirra stuðlar að sjálfbærri þróun í lífhagkerfinu og stuðli að því að nýir kraftar leysist úr læðingi þegar kemur að framþróun íslensks matvælaiðnaðar.

Á tímum áskorana á sviði fæðuöryggis, næringaröryggis og lýðheilsu og mikilla breytinga í lýðfræði um gjörvallan heim er mikilvægt að horfa með nýjum hætti á nýtingu erfðaauðlinda Íslendinga og menningararfs tengdum lífhagkerfinu, möguleika til landbúnaðar í og nærri þéttbýli og nýtingu alþjóðlegrar tækni- og markaðsþekkingar til aukinnar verðmætasköpunar og bættar lýðheilsu.  Notendamiðuð hönnun, vara og þjónusta, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, eru grundvallaratriði í þessu samhengi.

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna-, þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði, með aukna verðmætasköpun, bætt matvælaöryggi og bætta lýðheilsu að markmiði.  Matís hefur á síðustu árum náð mjög góðum árangri í sókn í alþjóðlega rannsókna- og nýsköpunarsjóði, í samstarfi við íslensk og erlend fyrirtæki og stofnanir. 

Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskólans býður upp á BA-nám í vöruhönnun og alþjóðlegt MA-nám í hönnun. Við deildina er lögð áhersla á nýtingu staðbundinna hráefna til þróunar og nýsköpunar. Deildin hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknarverkefnum á sviði matarhönnunar og vöruþróunar með sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og samfélags að leiðarljósi.