Fréttir

Matís og samstarfsaðilar hljóta um 150 milljóna króna styrk úr Markáætlun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Markáætlun vegna samfélagslegra áskorana er nýr samkeppnissjóður á vegum stjórnvalda sem settur var á laggirnar fyrr á þessu ári. Háskólar, fyrirtæki og rannsóknastofnanir, sem vinna saman á ákveðnu fræðasviði eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana, geta sótt um styrki í hann.

Eitt þeirra 7 verkefna sem hlýtur styrk, ber heitið „Sjálfbær staðbundin nýting hráefna í áburð – heildstæð nálgun að hringrásarhagkerfi“. Matís leiðir verkefnið og verkefnisstjóri er Marvin Ingi Einarsson, Iðnaðarverkfræðingur.

Á Íslandi eru flutt inn um 46 þúsund tonn af tilbúnum áburði á hverju einasta ári, en hann er mikilvægur þáttur í fæðuframleiðslu, landgræðslu og kolefnisbindingu. Framleiðslan er hins vegar ekki sjálfbær. Hún losar gróðurhúsalofttegundir og er á barmi þess að þurrausa úr takmörkuðum auðlindum.

Í þessu verkefni mun hópur íslenskra fyrirtækja og stofnana leita bestu leiða til að nýta íslenskar auðlindir, aukaafurðir frá ýmsum iðnaði og þróa framleiðsluferla til að framleiða sjálfbæran áburð fyrir íslenskan landbúnað og landgræðslu.

Samstarfsaðilar eru Atmonia, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan og Landsvirkjun.